11,9/32° léttskýjað.
Í dag fórum við í gönguferð með fólkinu sem við erum með í leikfimi og nokkur barnabörn voru með í för. Það var gengið að útivistarsvæði, þar sem eru borð og bekkir í skugga stórra trjáa , sem sagt mjög huggulegur útivistarstaður. Þetta er sirka hálftíma gangur á venjulegum gönguhraða , en við vorum eitthvað lengur því sumir eiga svolítið erfitt með gang, en það var heldur enginn sem sagði flýttu þér.
Fólkið tók svo mikinn mat með sér til að borða þarna að það var sendur bíll með nestið, en við Þórunn gátum borið okkar nesti einn banana og kexsköku og vatn til að drekka, en við erum ekki þáttakendur í þessari matarsamkeppni. Fólkið var líka með mikið af víni með sér, en það sér samt aldrei vín á nokkrum manni í svona ferðum. Það þykir bara sjálfsagt hér að drekka vín með mat. Þegar sessunautur minn bauð mér vín og ég afþakkaði og sagðist frekar vilja drekka vatn, sagði hann mér að vatn væri bara til að vökva gras en til að drekka notaði maður vín. Það er mikil samkeppni hjá konunum að vera með sem mestan mat með sér og svo er gengið um og reynt að fá fólk til að smakka á öllu. Maður verður að vera dálítið harður af sér að segja nei takk, því það er enginn vegur að gera öllum til geðs með því að bragða á öllu því sem í boði er. Ég set hér eina mynd af risaköku sem var fyrir framan mig á borðinu og ég varð að vera svo dónalegur að afþakka. Svo er mynd af borðinu sem við sátum við og að lokum, mér fannst svo flottur baksvipurinn á þessum vinum mínum að ég gat ekki stillt mig um að taka mynd af þeim Í gríni kalla ég þau litlu Gunnu og litla Jón, því þau eru mjög lágvaxin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli