Veður: 9,1/20,4° þokuloft/léttskýjað.
Stundum virðist manni sem veröldin sé ótrúlega lítil, eða þá að tilviljanir eru alveg ótrúlegar. Í dag fórum við í heimsókn á Sjúkrahúsið í Aveiro og til að fá leyfi til að heimsækja sjúkling þar verður að hafa samband við afgreiðsluborð og skilja þar eftir persónuskilríki og fá í staðinn aðgöngumiða sem gildir fyrir tvo í einu. Af þessu kerfi leiðir að þegar stórfjölskyldan kemur að heimsækja aðstandanda á sjúkrahúsið, eru margir sem verða að bíða inngöngu og í dag var anddyrið þarna alveg sneisafullt af fólki sem var að bíða þess að komast í heimsókn, trúlega um hundrað manns og allir að tala, að sjá tvo eða fleiri Portúgala saman komna og að þeir séu ekki að tala saman er eiginlega alveg óhugsandi. En aftur að tilviljunum, þegar stúlkan í afgreiðslunni rétti Þórunni vegabréfið sagðist hún sjá að hún væri frá Íslandi, en til Reykjavíkur sagðist hún hafa komið til að heimsækja vin sinn sem eitt sinn bjó hér í Aveiro og héti Stefán Unnsteinsson. Það var og, þetta er sá ágætismaður sem bjó hér þegar ég flutti hingað og var ávallt reiðbúinn til að aðstoða hvenær sem kallað var eftir hjálp.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli