Veður: -0,5/16,5° léttskýjað.
Nú er nokkuð um liðið síðan ég skrifaði síðast inn á heimasíðuna mína, ég tók mér frí því mér fannst ég hafa frekar lítið að skrifa um og nokkuð einhæft efni hjá mér. Það er víst eitthvert haltu mér slepptu mér sem togast á í okkur alla daga, því á meðan ég stundaði þessi skrif fannst mér á stundum að þau væru kvöð á mér, en eftir að ég hætti skrifunum hef ég oft saknað þeirra, svo nú tek ég þráðinn upp þar sem frá var horfið.
Það merkasta sem á dagana hefur drifið á þeim tíma síðan ég skrifaði síðast er að við fórum til Íslands þann 27. Sept og vorum þar til 23. Okt. Aðalerindið til Íslands auk þess að heilsa uppá ættingja og vini var að hafa tal af lækninum mínum. Sem betur fór var það viðtala og skoðun jákvæð fyrir mig.
Við höfðum sama einbýlishús ásamt bíl til afnota í Kópavogi og í fyrra og það verður seint hægt að þakka þá greiðasemi af eigendum hússins að lána okkur það til afnota.
Bankakreppan skall á meðan við vorum á Íslandi og við gengum á milli banka til að reyna að skrapa saman eitthvað af gjaldeyri til að eiga fyrir salti í grautinn þegar við kæmum heim. Okkur tókst að skrapa saman smávegis og vonum að gjaldeyrismálin komist í lag áður en langt um líður. Ég ætla alveg að sleppa því að segja mitt álit á hvers vegna ástandiðá Íslandi í dag er eins og það er, mér finnst vera nóg komið af skrifum hjá fólki sem er viturt eftir á og segir núna hvað hefði átt að gera eða ekki að gera til að forðast að svona færi. Það hlýtur að vera mest um vert að finna leið út úr þessum ógöngum sem fyrst og reyna að tryggja að þeir sem minnst mega sín verði ekki fyrir skerðingu.
Nú kemur sér vel að eiga garð og við vorum svo forsjál að setja niður kál áður en við fórum til Íslands og það erum við að borða núna og svo settum við líka niður kál þegar við komum heim, svo við ættum að eiga nóg af káli í vetur. Það má samt ekki skilja þessi skrif þannig að við lifum eingöngu á káli þessa dagana, ég er bara að segja frá þessari kálrækt til merkis um veðurfarið hér og möguleikann á að vera með eitthvað ferskt grænmeti allt árið. Í dag fórum við í gróðrarstöð til að kaupa blóm og fyrir valinu voru stjúpur, því þær eru mjög sáttar við vetrarveðrið hér.
Hér er verið að koma blómunum fyrir í beðinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli