Veður: 10,8/05,5° úrkoma 2,7mm. Alskýjað.
Hér koma tölur yfir veðrið í desember.
Ég þakka kærlega ánægjuleg samskipti á þessu ári sem nú er að kveðja og óska öllum gæfu og góðs gengis á komandi ári.
Lítið eitt um tilveruna á bökkum Ölfusár og hvar annars staðar þar sem höfundur þessara pistla kann að stíga niður fæti í framtíðinni.
Veður: 10,8/05,5° úrkoma 2,7mm. Alskýjað.
Hér koma tölur yfir veðrið í desember.
Ég þakka kærlega ánægjuleg samskipti á þessu ári sem nú er að kveðja og óska öllum gæfu og góðs gengis á komandi ári.
Veður: 4,5/14,3 úrkoma 14,4 mm.byrjaði að rigna upp úr hádegi og samfelld rignign til kvölds.
Það eru fá heimili hér í landi þar sem ekki er eftirlíking af fjárhúsinu þar sem þau María og Jósep ásamt frumburðinum eru höfð í heiðurssæti yfir jólahátíðina. Í flestum sveitarfélögum er líka sett upp eftirlíking af fjárhúsinu og það virðist sem það sé lagður talsverður metnaður í að gera þetta sem glæsilegast. Þetta fjárhús sem ekki er af hefðbundinni gerð sá ég í dag.
Veður: 2/8,1° úrkoma 20,66 mm byrjaði að rigna um hádegi og hefur rignt samfellt síðan.. Það var dálítill vindur hér í nótt, allavega nægur til að leggja diskinn fyrir sjónvarpsmóttökuna á hliðina og svona leit hann út þar sem hann hvíldi í grasinu, hvíldinni feginn.
Diskurinn er búinn að standa af sér öll veður sem hér hafa komið í rúman áratug, en orsökin fyrir því að hhann féll nú held ég að sé að það var búið að snúa honum til suðurs svo við gætum hlustað á rúv í gegnum gervihnött og því hefur norðanáttin náð betri tökum á honum en meðan hann snéri ýmist í suðaustur eða suðvestur. Hver sem orsökin er, þarf að endurreisa hann og síðan að stilla hann á réttan hátt á ný, en þangað til því er lokið getum við bara horft á portúgalskt sjónvarp í gegnum annan disk. Það verður að bíða betra veðurs að koma þessu í lagi og sennilega verður að kalla til sérfræðing til að stilla diskinn af.
Veður;-2,9/13,5° Léttskýjað
Öllum þeim sem litið hafa inn á þessa síðu óska ég gleðilegra jóla um leið og ég þakka fyrir innlitið.
Veður: 1,9/18,7° léttskýjað
Hér er fyrsti dagur í vetri í dag og ekki nkkur leið að kvarta yfir veðrinu.
2/15,6 Léttskýjað, gola í nótt og fram á morgunn.
Þetta var annasamur dagur, byrjuðum á að fara á litlujólin í leikfiminni.Það var vel mætt og byrjað ðá að gera æfingar og svo var dansað smástund áður en farið var að borða.
Næst lá leiðin á tölvuverkstæðið til að athuga hvernig gengi að gera við tölvuna, þá kom í ljós að harði diskurinn var ekki bilaður svo verið var að leita að bilun í einhverju öðru í tölvunni. Þetta varð til þess að ég ákvað að taka tilboði sem ég fékk þegar ég kom með tölvuna í viðgerð að setja upp fyrir mig nýja tölvu fyrir 415 Eu og hún á að vera tilbúin um hádegi á morgunn. Ótrúlegt að það standist.
Næst á dagskrá var að fara til Aveiro og kaupa nýjan mótakara fyrir sjónvarpið, ekki líkaði okkur við gripinn, svo við skiluðum honum aftur. Þaðan héldum við til Val edo Cambra, í búð sem við vorum í gær, en þar var gott úrval að móttökurum. Sölumanninum þar tókst ekki að finna rúv á tækinu á meðan við vorum þarna svo það varð að samkomulagi að við kæmum aftur á morgunn, svo honum gæfist betri tími til að athuga þetta.
Veðrið í gær þriðjudag -2,3/10,3° léttskýjað.
Veðrið í dag miðvikudag -0,9/12,3° léttskýjað.
Það varð ekkert úr skrifum hjá mér í gær, því maðurinn sem var að gera við tölvuna fyrir mig kom hingað með hana þegar ég ætlaði að fara að skrifa minn pistil og var hér framundir miðnætti að gera það sem hann átti að vera búinn að gera. Verst af öllu er samt að tölvan er engu betri en þegar hann fór með hana til viðgerðar. Við fórum með tölvuna á verkstæði í dag og þar er talið að harði diskurinn sé að gefa sig, það er léleg ending, því tölvan verður ekki tveggja ára fyrr en í mars og áður er lausa drifið sem fylgdi með tölvunni búið að bila.
Í gær vorum við gamlingjarnir sem erum í leikfimi boðin á „leiksýningu“. Margt af þessu fólki á erfitt með gang en varð að láta sig hafa að fara upp á aðra hæð,því það komust ekki allir fyrir í aðalsalnum í leikhúsinu, svo hluti hópsins þurfti að fara upp á svalir. Leikendur skiluðu misvel sýnum hlutverkum, en þeir voru fimm eða sex talsins. Ekki skildi ég mikið af því sem sagt var, en látbragðið var kunnuglegt. Efni leikritsins var undirritun á einhverjum plöggum varðandi átak í heilsurækt fyrir aldraða og eins og gefur að skilja voru leikendur bæjarstjórnin. Það hefði verið alveg nóg að kynna þetta með bréfi, en sennilega metið sem svo að það væri ekki eins góð auglýsing fyrir bæjarstjórnina. Að sjálfsögðu gleymdu þeir ekki að nefna hvern annan með viðeigandi titlum.
Veður:-1,9/11,1° að mestu léttskýjað.
Það er best að halda áfram þar sem frá var horfið í gær með að birta myndir af jólatrjám. Núna eru það tvö tré úr sitt hvorri verslunarmiðstöðinni og ekki hægt að segja að þetta séu hefðbundin jólatré.
Veður: 1,3/8,5° úrkoma 9,6 mm. Skúraveður frameftir degi, en létti til undir kvöld.
Fórum út að borða í dag og fengum ágætis saltfiskrétt. Svona í leiðinni athugaði ég aðeins verð á tölvum, svona til að hafa það á hreinu ef svo ólíklega færi að tölvan mín væri alvarlega biluð. Góðar tölvur kosta frá 800-1000 eu, en hægt að fá þær allt niður í 300eu, en það eru ekki verkfæri sem ég væri sáttur við að nota.
Ég er að taka myndir af skreytingum í verslunum núna þessa dagana og læt tvær myndir fljóta með í dag.
Veður: 2,9/13,3° úrkoma 29,6mm. Slagveðursrigning framyfir hádegi með dálitlum vindi, smáskúrir síðdegis og lygnt.
Tölvan mín er búin að vera dálítið morgunlöt upp á síðkastið, hefur þurft að gera nokkrar atrennur að því að vakna, en alltaf haft sig af stað að lokum þangað til í gær þá var engin leið að nudda henni til að vinna sín verk. Ég reyndi að nudda henni af stað bæði með góðu og illu, en árangurslaust. Þá var þrautalendingin að hringja í minn tölvumann í gærkvöldi og hann lofaði að líta hér inn klukkan tíu í morgunn og stóð sem næst við það var ekki nema einum og hálfum tíma á eftir áætlun sem verður að teljast mjög gott þegar hann á í hlut. Honum tókst ekki að fá tölvuna til að vinna eðlilega, svo hann tók hana með sér til frekari meðferðar og ég vona bara að honum takist að koma henni í lag sem fyrst. Núna vinn ég á fartölvuna, er búinn að tengja við hana stóra skjáinn, lyklaborðið og kúlumúsina, svo þetta bjargast í nokkra daga.
Veður: -2/7,5° úrkoma 4,1 mm. Þokusúld og logn.
Eins og sjá má á tölunum hér fyrir ofan var dagurinn í dag í tölu svölustu daga sem hér koma og þá heldur maður sig bara innandyra, því það má víst teljast að svona kuldi stendur ekki samfellt í marga daga.
Veður: 5,5/14,3° léttskýjað og smávegis golukaldi.
Þórunn hafði lokið við að ganga frá jólakortunum, svo við fórum með kortin á póst. Nú fyrst við vorum á annað borð komin af bæ héldum við áfram til Aveiro og byrjuðum á að fá okkur að borða þar og á eftir keyptum við sitt lítið af hverju sem heimilið vanhagaði um.
Síðdegis unnum við í garðinum, það má eiginlega kalla það jólatiltekt. Trén sem ekki eru sígræn eru búin að losa sig við allt laufið, svo það þurfti að fjarlægja það og til þess notaði ég sláttuvélina, það er svo ljómandi gott að nota hana sem ryksugu í þessu tilfelli. Þórunn klippti niður rósirnar og snyrti ýmislegt annað í leiðinni. Svo nú myndi ég segja að garðurinn væri kominn í jólabúninginn sinn.
Veður: 3,2/13,6° úrkoma 17,2 mm. Það var rigning fyrri helming dagsins, en að mestu þurrt síðdegis og sólin fékk aðeins að minna á að hún væri enn til staðar.
Smá misskilningur varð til þess að ég var hjá tannlækni í dag. Síðast þegar hann gerði við hjá mér sagði hann að þessi viðgerð myndi ekki endast lengi og ég tól það svo að hann væri þá að tala um einn eða tvo mánuði, en í dag þegar ég var sestur í stólinn kom í ljós að hann meinti tvö til þrjú ár. Fyrst ég var sestur í stólinn hreinsaði hann aðeins þessar fáu tennur sem eftir eru, sennilega svo hann gæti með betri samvisku látið mig borga smávegis fyrir komuna. Eftir heimsóknina hjá tannlækninum fórum við til Aveiro og fengum okkur að borða og versla lítilræði.
Vinur minn benti mér á að hægt er að hafa á íslensku bæði stýrikerfið og office forritin og leiðbeiningar um að nálgast þetta, svo nú er þetta komið á íslensku að miklu leiti. Það tekur sjálfsagt svolítinn tíma að venjast þessu, en ætti að vera þægilegra þegar framlíður.
Veður: -2,8/12,6° léttskýjað. Nú er svo að sjá að kuldakastið sem gengið hefur hér yfir skagann undanfarna daga ætli að taka sér smáhvíld. Þetta hafur verið með mestu vetrarhörkum sem hér koma og hér inni í landi er víða snjór yfir öllu. Við höfum notað okkur þessa daga að brenna í viðarofninum hér inni það sem tilfellur af trjánum hér í garðinum, en það dugir í svona fimm daga. Annars sjá loftkælingarnar/hitanirnar um að halda húsinu hjá okkur í þeim hita sem við óskum.
Við fréttum af því fyrir viku að hægt væri að ná sjónvarpi og útvarpi frá Rúv í gegnum gervihnött hérna. Við biðum ekki boðanna að fá mann til að stilla fyrir okkur gervihnattamóttakarann og þeir mættu hér í dag og nú getum við hlustað á rás 1 og 2, vantar bara kort í mótakarann fyrir sjónvarpsútsendinguna, því hún er send út rugluð, en vonandi fáum við það kort fljótlega. Það er svolítið undarlegt að geta allt í einu hlustað á íslenskt útvarp hér í Portúgal, en svona hjálpar tæknin til við að stytta fjarlægðir í heiminum.