Veðrið í gær þriðjudag -2,3/10,3° léttskýjað.
Veðrið í dag miðvikudag -0,9/12,3° léttskýjað.
Það varð ekkert úr skrifum hjá mér í gær, því maðurinn sem var að gera við tölvuna fyrir mig kom hingað með hana þegar ég ætlaði að fara að skrifa minn pistil og var hér framundir miðnætti að gera það sem hann átti að vera búinn að gera. Verst af öllu er samt að tölvan er engu betri en þegar hann fór með hana til viðgerðar. Við fórum með tölvuna á verkstæði í dag og þar er talið að harði diskurinn sé að gefa sig, það er léleg ending, því tölvan verður ekki tveggja ára fyrr en í mars og áður er lausa drifið sem fylgdi með tölvunni búið að bila.
Í gær vorum við gamlingjarnir sem erum í leikfimi boðin á „leiksýningu“. Margt af þessu fólki á erfitt með gang en varð að láta sig hafa að fara upp á aðra hæð,því það komust ekki allir fyrir í aðalsalnum í leikhúsinu, svo hluti hópsins þurfti að fara upp á svalir. Leikendur skiluðu misvel sýnum hlutverkum, en þeir voru fimm eða sex talsins. Ekki skildi ég mikið af því sem sagt var, en látbragðið var kunnuglegt. Efni leikritsins var undirritun á einhverjum plöggum varðandi átak í heilsurækt fyrir aldraða og eins og gefur að skilja voru leikendur bæjarstjórnin. Það hefði verið alveg nóg að kynna þetta með bréfi, en sennilega metið sem svo að það væri ekki eins góð auglýsing fyrir bæjarstjórnina. Að sjálfsögðu gleymdu þeir ekki að nefna hvern annan með viðeigandi titlum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli