Ég fer að halda að ég hafi verið fljótur að smitast af íslandsæðinu, en þar á ég við að hér virðast allir vera að flýta sér og telja sér trú um að þeir hafi ekki tíma til neins, jafnvel þó ekkert sérstakt sé um að vera. Allavega kemur samfélagið hér mér þannig fyrir sjónir. Ég hlýt að vera orðin heltekinn af þessari vitleysu, því ég hef talið mér trú um að ég hafi ekki haft tíma til að blogga að undanförnu, en það hefur að vísu verið mikið að gera við að heimsækja fólk, því manni langar til að geta heilsað upp á sem flesta.
Samkvæmt áætlun stóð til að fara heim til Portúgals 23. þessa mánaðar, en nú er búið að fresta brottför héðan til 28. nóv vegna rannsóknar sem ég þarf að fara í vegna blöðruhálskirtilsins og mér finnst mun betra að fara í þessa rannsókn hér en í Portúgal, bæði er að ég treysti heilbrigðiskerfinu hér mun betur en því í Portúgal og svo er mikill munur að geta tjáð sig á sínu tungumáli.
Við erum svo heppin að hafa einbýlishúsið sem við erum búin að vera í síðan við komum hingað áfram á meðan við erum hér, svo það væsir ekki um okkur þó ég sakni Portúgals. Nú er bara að stilla sig inn á daglegt líf hér, það byrjaði eiginlega í dag með því að þrífa gólfin í íbúðinni og elda sér grjónagraut og borða með honum lifrarpylsu, sem bragðaðist mjög vel. Næst á dagskrá er að herða sig upp í að fara í gönguferðir, þó veðrið sé ekki alveg upp á það besta. Þegar maður ætlar að vera í einn mánuð hér, er í lagi að slá slöku við hreyfingu, en þegar útlit er fyrir að mánuðirnir verði tveir, gengur slíkt kæruleysi ekki upp.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli