Ég hef lítið gert að því að blogga eftir að ég kom til Íslands og til þess liggja aðallega tvær ástæður, sú fyrri var að mér þótti óþægilegt að skrifa á lyklaborðið á fartölvunni, en nú er búið að bæta úr þeim vankanti með að kaupa annað lyklaborð við fartölvuna. Númer tvö var að það var svo mikið annríki við að heimsækja fólk að það gafst lítill tími til að skrifa.
Nú eru allar forsendur breyttar, því ef upphaflega áætlunin sem við gerðum þegar við lögðum upp í Íslandsferðina hefði gengið eftir þá værum við að pakka niður í dag og legðum á stað heim á morgunn, en nú er búið að fresta heimkomunni til 28. nóvember, svo ég geti farið í meiri rannsóknir með blöðruhálskirtilinn. Svona er lífið, við erum að reyna að gera einhverjar áætlanir fram í tímann, sem standast misvel og í þessu tilviki er það blöðruhálskirtillinn sem vegur aðeins nokkur grömm að mínum 77 kílóum sem verður til þess að ég verð að breyta fyrri áætlun, en eins gott að taka fullt tillit til hans þó lítill sé ef ekki á að fara illa.
Það væsir ekki um okkur í þessu góða húsi sem við höfum til umráða hér og nú gildir að vera duglegur að nota þær stundir til útiveru þegar veðrið er sæmilegt, ég bið nú ekki um meira en það, enda væri það varla raunhæf ósk hér á landi. Það var mjög gott veður í g´r sunnudag og þá fórum við tvisvar í gönguferð og eins fórum við út í morgunn á meðan veðrið var skaplegt, eins gott því nú er komin grenjandi rigning og rok.
Ég læt það alveg vera að reyna að skrifa lýsingu á veðrinu hér á hverjum degi eins og ég gerði í Portúgal, því veðrið hér er svo breytilegt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég skil það vel kæri Palli að ykkur sé farið að langa heim í fallega dalinn sem alltaf virðist skarta svo fallegu veðri. En eins og þú segir, er heilbrigðiskerfið óvíða betra en hjá okkur og betra er að fara ekki heim fyrr en eftir góða meðferð þrátt fyrir alla rigninguna og rokið. Sjáumst vonandi aftur í næstu viku.
Kær kveðja frá okkur Hauki.
Skrifa ummæli