23 maí 2008

Að vera léttvægur fundinn.

Veður: 15°/24,2° úrkoma 6mm. Skúrir í morgunn, en sá til sólar um tíma eftir hádegið, en aftur skýjað síðdegis.þ

Að vera léttvægur fundinn er eitthvað sem ég hef alltaf reynt að forðast, en ef til vill með misjöfnum árangri, en í morgunn var ekki um að villast að ég var léttvægur fundinn, en sem betur fer ekki í venjulegri merkingu þeirra orða. Nei það var baðvoginn sem kvað upp úr með það að ég væri léttvægur. Mín baðvog talar svo það er hægt að röfla við hana og segja henni að vera ekki að þessu bulli, hvort sem manni finnst hún vera að segja mig of þungann eða léttan. Ef hún segir of háa tölu er gjarnan stigið á hana aftur til að fá staðfestingu og svona til að láta á það reyna hvort hún þori að endurtaka það sem hún sagði, en hún er forhert og endurtekur bara fyrri tölur, þó horft sé á hana aðvarandi augnaráði. Þegar baðvogin segir mann þyngri en manni finnst eðlilegt miðað við hvað maður hefur borðað lítið, bara svona rétt nartað í matinn að manni finnst, nú svipað er upp á teningnum þegar talan er lægri en búist er við að þá finnst manni að hún ætti að vera hærri eða óbreytt frá því sem var, því alltaf finnst mér ég borða alveg mátulega mikið. Annars var talan í morgunn mjög góð og sérstök, því það er hægt að lesa hana hvort sem horft er á hana rétt eða á hvolfi. Það var bíleigandi á Selfossi sem átti bíl með þessu góða númeri og hann sagði að það væri mikill kostur að geta lesið númerið fyrirhafnarlaust þó bíllinn væri kominn á hvolf. Lesandi góður þú ert sjálfsagt nú þegar búinn að finna út hvaða tala þetta er, en ef ekki þá kemur hún hér 69 en það er ögn minna en mér finnst æskilegt, en það ætti ekki að vera vandasamt að koma sér upp fyrir 70 á ný, því að borða mat er mjög skemmtileg iðja.

Engin ummæli: