Veður: 8,3°/24,7° hálfskýjað. Það er ekki að undra þó mér þætti þessi mánuður sem er að líða, vera nokkuð vætusamur því þegar ég taldi saman þá sólarhringa sem ég hafði mælt úrkomu í mánuðinum reyndust þeir vera sextán. Úrkomumagnið var samt ekki mikið, eða aðeins 110 mm. Lægsti hiti var 2,7° en hæst komst hitinn í 30,2°
Fórum í hjólatúr í dag og meðfram þeirri leið sem við fórum er búið að sá í flesta akra, en svo er ein spilda sem er búin að vera ósnert í rúm tvö ár og það er ótrúlegt að sjá hvað þyrnigróðurinn er orðinn hávaxinn. Ég tók eina mynd til að sýna hvernig þetta lítur út. Fyrst sést akurinn sem hefur verið í ræktun og nú er maísinn að koma til þar, en svo tekur við mjó ræma sem ekkert hefur verið sinnt um, en síðan tekur við trjágróður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli