Veður: 13,7°/29,3° léttskýjað
Í gær fórum við í bæ sem heitir Cantanhede og er 50 km. til suðurs frá Austurkoti, en Austurkot er að sjálfsögðu nafli alheimsins. Í þessum bæ er búin að vera alþjóðleg dixiland músik hátíð í þrjá daga og við hefðum sennilega drifið okkur á einhveja tónleika þarna ef ég hefði ekki verið með kvef. Í dag var semsagt lokadagurinn og þá var heljarmikil skrúðganga um götur bæjarins. Gangan byrjaði ekki fyrr en klukkan fjögur, svo okkur fannst alveg tilvalið að fá okkur að borða í bænum á meðan við biðum eftir því að gangan hæfist. Það er alltaf eins þegar veriið er á ókunnugum slóðum að maður hefur ekki glóru um hvar á að leita að matsölustað, svo við lögðum bílnum og röltum af stað og vorum heppin, því fljótlega hittum við mann á förnm vegi sem við spurðum hvar hægt væri að fá matarbita í þessum bæ. Sá var ekki lengi að bjarga okkur út úr þessum vanda, hann gekk með okkur nokkur skref fyrir næsta húshorn og benti þar á gult hús sem hann sagði að hýsti góðan veitingastað og sú fullyrðing mannsins stóðst alveg, því gómsætari nautalundir hef ég varla bragðað, en ostatertan sem við fengum í ábæti var ekki eins góð, en þá er maður bara ekkert að spá í hana en hugsar um lundirnar. Það hagar svo til þegar komið er inn í þetta veitingahús að á jarðhæðinni er komið inn í bar, en svo er líka stigi upp á fyrstu hæðina og þangað völdum við að fara fyrst, þar var þá mjög stór salur og sennilega ein þrjú einkasamkvæmi þar á sama tíma, bara aðskilin með lausum skilrúmum. Við létum eiga sig að gerast boðflennur þarna, en snerum aftur niður á jarðhæðina, þar var þá mjög stór veitingasalur fyrir innan barinn og það var svo mikið að gera að við þurftum að bíða smástund eftir að það losnaði borð.
Það var mikill fjöldi fólks sem tók þatt í skrúðgöngunni, margir flokkar af stúlkum frá sex ára aldri og til gjafvaxta kroppa í klæðnaði frá fyrri hluta tuttugustu aldar og þær sýndu Charleston dans við undirleik lúðrasveita. Mér fannst nú tæpast við hæfi að hafa svona ungar stelpur í að sýna svona sexý dans, en þær dönsuðu af mikilli einbeitni og innlifun eigi að síður. Það hefur örugglega hver einasta pía í þessum bæ teki þátt í að sýna dansinn svo margar voru þær.
Eftir dansflokkunum komu svo hestar og hestvagnar, gömul reiðhjól og reiðhjólafígúrur, gömul mótorhjól og að síðustu fornbílar. Lestina ráku svo sóparar bæjarins með sína kústa tilbúnir að þrífa göturnar eftir hátínina.
Þetta var semsagt ágætis skemmtun að fara þetta.
Smellið á Myndir hér til hægri til að sjá myndir frá skrúðgöngunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli