Fyrir nokkru fékk ég ný stafræn heyrnartæki, en þó þau gerðu það að verkum að ég heyrði mun betur en áður átti ég samt dálítið erfitt með að greina almennilega þegar ég hlustaði á tal og samræður, Þórunn kvartaði yfir að ég heyrði lítið betur en með gömlu tækjunum.
Í morgunn lét ég svo verða af því að fara á Heyrnar og talmeinastöðina og athuga hvort hægt væri að ráða bót á þessu vandamáli. Sérfræðingurinn tók tækin og tengdi við tölvu og hækkaði þá tíðni sem tal er á og nú finnst mér mun auðveldara að fylgjast með tali. Mér finnst merkilegt að það skuli vera mögulegt að stilla tækin á ákveðna tíðni, svo þau nýtist betur. Ég var hvattur til að koma aftur ef það væri eitthvað sem ég teldi að betur mætti fara.
Á heimleiðinni komum við, við hjá Blindrafélaginu og fengum lánaðan spilara til að hlusta á hljóðbækur sem við erum með að láni og þar næst fórum við á Sjónstöðina og það fengum við lánaða tölvu handa Þórunni, svo nú erum við komin með sitt hvora tölvuna eins og heima í Austurkoti.
Fyrir mér er tölvumús og tölvumús ekki það sama, mér finnst alveg ómögulegt að nota þessar venjulegu mýs sem verður að skarka með aftur á bak og út á hlið á borðinu og oftar en ekki komast ekki nógu langt svo það verður að lyfta þeim upp og byrja að nýju, nei ég vil sko hafa kúlumús sem alltaf er kyrr á sama stað á borðinu og nú er ég komin með eina slíka sem ég fékk hjá dóttur minni og þvílíkur munur að vinna við tölvuna núna.
Fórum í gönguferð í dag, en tvo undanfarna daga hefur ekki verið hundi útsigandi fyrir roki og rigningu, fengum að vísu smávegis slyddu í gönguferðinni í dag, svona rétt til að minna á að við værum á Íslandi í gönguferð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Fínt að þið skulið vera komin með góðar tölvur til að vinna við þegar lítið er á dagskránni. Manni leiðist aldrei þegar þessar elskur eru nálægar.
Kær kveðja,
Skrifa ummæli