Þegar það kom í ljós að krabbi var búinn að hreiðra um sig í blöðruhálskirtlinum var ákveðið að ég færi í beinaskan til að ganga úr skugga um að krabbinn hefði ekki komist í beininn, heldur héldi sig á afmörkuðu svæði.
Ég átti að mæta á röntgendeild í gærmorgunn fyrir sólarupprás, en það er nú ekki tiltakanlega snemma sem sólin nær að sýna sig á morgnana á þessum árstíma. Þarna var byrjað á að sprauta í mig einhverju efni sem átti að dreifast út í beinin og til að auðvelda það ferli átti ég að drekka mikið af vatni, sem ég og gerði samviskusamlega, en það fylgdi líka með í fyrirmælunum að tæma vel þvagblöðruna fyrir myndatökuna.
Þrem tímum siðar var svo hafist handa við að skanna mig, það er svolítið undarleg tilfinning að liggja þarna á bekk og vita að það sé verið að skoða í manni alla innviði og ég fékk staðfestingu að svo er í raun og veru þegar mér var sagt að það væri of mikið í þvagblöðrunni og ég yrði að tæma hana betur svo hægt væri að ljúka verkinu. Það er eins gott að tæma alveg hugann á meðan höfuðið er skannað, mé hlýtur að hafa tekist það, því ég sá ekki neinn skelfingarsvip á konunni á meðan toppstykkið var í skoðun.
Nú koma góðu fréttirnar, heimilislæknirinn hringdi í mig áðan og sagði að það væri allt í góðu lagi með beinin hjá mér, þau væru alveg hrein eins og hann orðaði það. Hinsvegar væri slit í liðamótum hér og þar sem væri bara eðlilegt eftir talsverða notkun. Það er svo að sjá að það hafi ekki verið reiknað með að nota mannsskrokkinn í svona mörg ár þegar hann var hannaður. Það virðist ekki hafa verið reiknað með að nota þetta fyrirbæri nema svo sem í fimmtíu ár, en nú er í mörgum tilfellum búið að tvöfalda notkunartímann án þess að gera nokkrar endurbætur til að skrokkurinn þoli lengri notkun. Það veitti ekki af að setja einhverja nefnd í þetta mál og það fyrr en síðar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Sæll frændi.
Gott aer að heyra að slæmu fréttirnar gætu verið miklu verri.
Ég tek undir með þér varðandi nefndrskipunina. Þessu þarf að koma til umhverfisráðuneytisins. Það hlýtur að teljast sjómengun að sjá mjög marga á okka aldri og þaðanaf eldri skakka og skælda að skakklappast um heimsþorpið sem við búum í.
Þór Jens
hæ palli,
það er gott að heyra að skanninn kom hreint út. hef hugsað stíft til ykkar þessa daga. já það er furðulegt hönnun á líkama að hann skuli ekki duga vel allan lífstíma. kveðja lorýa björk
Sæll Palli.
Guðrún Anna heiti ég og er frænka hennar Dúddu frá Vopnafirði. Ég var að lesa bloggin ykkar og vildi bara senda ykkur báðum baráttukveðju. Þökk sé nútímatækni og þekkingu að hægt er að stoppa svona mein, það er gott að vera uppi á þessum tíma en ekki fyrir 100 árum!!
Kveðja úr snjónum (sem kom í nótt) á Vopnafirði.
Guðrún Anna og fjölskylda
Sæl og blessuð.
Æ hvað það var nú gott að allt kom vel út úr beinskannanum. Vona að þið eigið góða ferð suður á bóginn og góða heimkomu. Kveðja af héraði.
Sigurveig.
Skrifa ummæli