Veður: 14,4°/25,5° úrkoma 3mm. Rigndi fyrst í morgunn, en góðar sólarstundir síðdegis.
Verkefni dagsins í dag var að skoða nýja verslunarmiðstöð í bæ sem heitir Viseu og er í um 60 km. Fjarlægð héðan til austurs, eða í átt að Spáni Nafnið á húsinu er PalácioDoGelo, eða íshöllin og nafnið kemur væntanlega til af því að á fimmtu og efstu hæðinni í þessari stóru og glæsilegu byggingu er skautasvell, þó ekki úr venjulegum ís heldur einhverju gerviefni, sem er óneitanlega stór kostur því ekki verður manni kalt á skautum þarna. Ég man enn hvað manni gat orðið illilega kalt í skautaferðum í gamla daga, en nú er slíkt semsagt liðin tíð. Þetta er einhver sú glæsilegasta bygging sem ég hef séð og það virðist ekkert hafa verið til sparað að gera hana fallega að innan. Á neðstu hæðinni er tjörn með gosbrunni og vatnsúlan sem fer hæst nær sömu hæð og fimmta hæðin.
Það er heilmikil vinna að skoða svona hús, svo við gerðum matarhlé þegar við vorum búin að ganga lengi lengi, eins og sagði í ævintýrunum. Það er mikið úrval af matsölustöðum á fimmtu hæðinni, auk þess eru skemmtilegar kaffistofur á hverri hæð. Við völdum mat sem okkur leist vel á og að vanda ætlaði Þórunn að ná í budduna í veskið sitt, því hún sér um allar greiðslur, því ekki sé ég á peninga, en það kom mikill skelfingasvipur á mína konu, því hún fann enga budduna í töskunni hvernig sem hún leitaði og við komin með matinn á diskunum að kassanum. Nú voru góð ráð dýr, en þetta bjargaðist fyrir horn því ég er venjulega með nokkrar evrur í minni tösku og það nægði til að losa okkur úr snörunni. Þess má geta að nú er ég kominn með nokkuð digrari sjóð í mína tösku en verið hefur. Þegar við vorum búin að borða ætluðum við að ná okkur í peninga í bankaútibú frá bankanum okkar sem Þórunn var búin að sjá að var á neðstu hæðinni, en það reyndist ekki eins auðvelt og við héldum, því í ljós kom að þetta var banki án peninga. Þarna var sem sé bara skjalaafgreiðsla og kortabanki, sem við gátum ekki notfært okkur þar sem kortin voru heima, við vorum að vísu með ávísanahefti, en þar sem okkur síður en svo bráðvantaði nokkuð sem við sáum þarna versluðum við ekkert í þessari ferð nema matinn.
Okkur fannst húsið svo sérstætt að Þórunn tók kvikmyndir og ég venjulegar myndir til að eiga til minningar, en þegar ég var að setja myndavélina ofan í töskuna kom öryggisvörður til mín og sagði að myndataka innandyra væri óheimil, nema að ég mætti taka myndir af konunni minni þarna inni. Gott að hann tók ekki eftir mér fyrr en ég var búin að taka allar þær myndir sem ég hafði áhuga fyrir að taka.
Mynd tekin af efstu hæðinni. Sérkennilegir stólar.
1 ummæli:
Peningalaus banki er eins og Bordel uden damer!
S
Skrifa ummæli