28 apríl 2006

27. apríl

Veður: 14° / 25°. Þoka til klukkan ellefu, bjart eftir það.

Við áttum pantaðan tíma hjá lækninum okkar klukkan ellefu, en þó maður eigi pantaðan tíma þýðir það ekki minna en klukkutíma bið á biðstofu. Það er alltaf nokkuð margt fólk á þessari biðstofu á heilsugæslunni, því hún er fyrir þrjá lækna. Eins og gengur er þarna fólk af öllum aldursflokkum, frá kornabörnum og að gamalmennum sem eiga erfitt með að hreifa sig á meðan kornabörnin veifa höndum og fótum í sífellu til að styrkja sig og þjálfa. Eins og gengur er fullorðið fólk samt í meirihluta sem eðlilegt er, því það er sitthvað sem þarfnast viðhalds þegar árunum fjölgar. Erindið til læknisins núna vara að fara með niðurstöður úr blóðrannsókn og ómskoðun sem hann sendi okkur í, en hann sendir okkur reglulega í blóðrannsóknir til að fylgjast með kólesteróli og fleiru. Ég er enn með aðeins of hátt magn af kolessróli, en aðaláhyggjuefnið hjá honum er of hátt gildi af Ph. í blöðruhálskirtlinum, svo ég á að fara aftur í blóðrannsókn í ágústmánuði.
Við vorum ekki laus frá lækninum fyrr en klukkan að verða eitt og þá drifum við okkur heim til að borða, en eftir matinn fórum við í nokkrar búðir, meðal annars til að leita að stórri ofnskúffu í bakar ofninn á eldavélinni. Skúffa sem passaði alveg í ofninn fannst í fjórðu búðinni sem við fórum í. Skúffan var vígð strax í kvöld með því að steikja í henni kjöt, kartöflur, lauk og gulrætur til að hafa í mat handa guðmundi og Jónínu þegar þau kæmu úr húsaskoðunarferðinni og einnig buðum við Eyjólfi í mat, en Jónína og hann eru gamlir vinnufélagar. Guðmundur og Jónína voru mjög ánægð með sitt ferðalag og eru jafnvel að spá í að kaupa eitt af þeim húsum sem þau skoðuðu. Það hús þarfnast töluverðrar endurnýjunar, en þeim leist vel á staðinn, þetta er í um það bil 120 Km. Til suðurs frá okkur.

Við fengum reglulega fréttir með SMS. Boðum í gær um hvernig Geira og Rósu miðaði áfram á ferð sinni hingað. Fyrsta tilkynning kom klukkan tíu um morguninn, en þá voru þau nálægt París,næst fréttum við svo af þeim klukkan fjögur á móts við Bordo. Síðast kom svo frétt um að þau væru komin á hótel og þá voru þau komin til Spánar, svo nú er bara endaspretturinn eftir hjá þeim á morgunn.

Engin ummæli: