23 apríl 2006

Ferðalag

Veður; Léttskýjað 7°/ 27°
Í góða veðrinu í morgunn var lagt upp í ferðalag til bæjar sem heitir Trancoso. Þessi bær er í austur átt frá okkur, eða í átt til Spánar og er í um 130 km fjarlægð héðan. Leiðin þarna upp eftir, því þetta er upp í fjöllum bærinn stendur í 870 m. hæð yfir sjó er mjög falleg og víða gott útsýni þar sem vegurinn liggur á hæðarhryggjum.
Upphaflega var ætlunin að fara þangað í marsbyrjun til að sjá möndlutrén í blóma, en það er mikið af þeim á þessu svæði. Af ýmsum ástæðum dróst að fara í þessa ferð og nú eru möndlutrén löngu búin með sína blómgun, en bærinn sjálfur er vel þess virði að skoða hann.
Þarna er kastali og kastalaveggirnir virtust vera vel varðveittir en kastalann sjálfa gátum við ekki skoðað því það er lokað á sunnudögum, svo einkennilegt sem það nú er.
Það er samt gaman að skoða gamla bæinn sem er innan virkisveggja utan við kastalavirkið sjálft. Þarna eru þröngar götur eins og ævinlega í svona bæjum og elstu húsin eru frekar lítil. Ólíkt mörgum öðrum svona bæjum er öllu vel við haldið þarna og snyrtilegt. Inngangurinn í gamla bæinn er í gegnum konungshliðið, sem sést á miðri myndinni sem ég set með þessum skrifum. Til hæri við innganginn var lítill veitingastaður og krá þar sem við fengum okkur að borða Þarna leit út fyrir að fjölskylda sæi um reksturinn, allavega kom það mér þannig fyrir sjónir. Mamman sá um matreiðsluna, sonurinn sá um að þjóna til borðs og sjálfur heimilisfaðirinn var við afgreiðslu í bar sem er samtengdur borðsalnum. Það er ef til vill ofrausn að tala um borðsal, því það eru örfá borð þarna inni. Mamman eldaði góðan mat og var ekki lengi að snara í okkur steiktu kjöti með sveppasósu og auðvitað frönskum og grjónum, þetta bragðaðist vel og kostaði ekki nema 12 €.
Það var gaman að virða fyrir sér viðskiptavinina, sem ekki voru margir en virtust sem fjölskylduvinir. Einn eldrimaður sem var gestur þarna var svo stuttur tilhnésins, að þegar hann var sestur á stólinn sinn þá náðu fæturnir ekki niður í gólf. Kona kom þarna til að sækja mat til að fara með heim og hún kyssti mömmu á báðar kinnar eins og venja er hér hjá kunnugu fólki. Þegar færi gafst frá afgreiðslu á barnum fékk Pabbinn mat á sinn disk og borðaði hann meðal gestanna. Það var semsagt mjög heimilislegt og notalegt að borða þarna.
Við fórum ekki sömu leið heim frá Trancoso og við komum þangað heldur héldum fyrst í vestur þaðan um fallega sveit. Þar var talsvert um sauðfé á beit, það mun vera talsvert um sauðfjárrækt í þessum fjallahéruðum.
Síðan sveigðum við meira til suðurs og tóku stefnuna á borg sem heitir Viseu. Þegar við lögðum upp í ferðina var ekki ætlunin að koma við í Viseu, en þetta er falleg og snyrtileg borg svo við ákváðum að koma þar aðeins við. Það var sumarstemming þarna í góða veðrinu, á torgi í hjarta bæjarins er veitingastaður, sem var þéttsetinn fólki bæði úti og inni. Við slógumst í hópinn og fengum okkur sitt hvorn ísinn sem við borðuðum með góðri list sitjandi meðal heimamanna á bekk í garðinum.
Þessi ferð var meðal annars farin til að reyna GPS leiðsögutækin og það er ekki annað hægt að segja en að þau hafi reynst mjög vel, ef eitthvað var öðruvísi en það átti að vera var það stjórnandanum að kenna en ekki tækinu. Það er mjög gott þegar maður bregður sé inn í borg eins og Viseu, þá sér tækið alveg um að koma manni á rétt spor á ný, svo ferðalagið verður afslappaðra fyrir bragði. Það er munur að þurfa ekki að vera að stoppa og athuga hvar maður er staddur á korti upp á gamla móðinn, þó ekki sé nú vit í öðru en að hafa kort með sér í bílnum.
Þegar við komum heim tylltum við okkur í sólstólan hér á veröndinni og nutum þess að vera úti í góða veðrinu.

Engin ummæli: