18 apríl 2006

Vougadalurinn



Veður: Að mestu léttskýjað, smávegis þokumóða í lofti um miðjan daginn. 19°/8°
Nú er sólin komin úr sínu páskafríi, svolítið ergilegt fyrir þá sem ætluðu að nota páskafríið til að liggja í sólbaði á einhverri ströndinni. Það var mjög gott veður í síðustu viku, þar til á föstudag þá fór að rigna og síðan var skýjað bæði á laugardag og páskadag og skúrir svona hér og þar um landið.
Þá er að týna til afrek dagsins. Eftir hefðbundin afrek morgunsins hélt ég áfram við að kalka múrinn í kring um garðinn, en það þarf að kalka hann á hverju ári ef hann á að líta vel út. Nú er komið nýtt auðveldara og meðfærilegra og hættuminna kalk á markaðinn en verið hefur fram að þessu. Nú er kalkið bara hrært út í vatni og er þá strax tilbúið til notkunar, en hér áður fyrr þurfti að láta það standa í sólarhring eftir að það var hrært út áður en hægt var að mála með því. Nú er heldur ekki lengur hætta á að það myndist gos þegar verið er að hræra kalkið út, en það gat verið mjög hættulegt og menn gátu brennst í andliti ef það slettist í andlit manna. Dæmi eru um að menn hafi misst sjón af völdum kalkbruna. Einn íbúi hér í Stóradal varð fyrir slíku óhappi og er blindur síðan.
Ég sem sagt lauk við að kalka veggina að innanverðu og brunninn kalkaði ég líka að utan, svo nú er þetta allt saman alveg skjanna hvítt. Nú er bara eftir að kalka múrinn að utanverðu, en ég var í kapphlaupi við blómin inni í garðinum, því það er svo erfitt að komast að veggnum þegar þau eru orðin hávaxin.
Meðan ég var að þessu var Þórunn að þvo þvott og elda mat og sjálfsagt eitthvað fleira sem ég veit ekki um, eftir matinn þvoði hún svo tröppurnar hérna upp á geymsluloftið, því hún ætlar að mála þær einhvern daginn.
Þegar öllum skylduverkum var lokið var lagt upp í hjólaferð og stefnan tekin hér inn Vouga dalinn, en hann dregur nafn sitt af ánni sem rennur eftir honum. Þetta er þröngur dalur, rétt pláss fyrir veg meðfram ánni annars vegar, en hæðirnar beggja vegna eru að sjálfsögðu skógivaxnar eins og allt þetta svæði hér í kring. Það liggja þrír vegir hér út úr Stóradal og þeir eiga það sameiginlegt að maður verðu að byrja á að fara upp brekku til að komast upp úr dalnum. Ég man enn hvað mér fannst erfitt að komast upp þessar brekkur fyrst þegar ég var að byrja að hjóla hér í þessu fjalllendi og ein fyrsta ferðin sem ég fór var einmitt inn þennan dal og þá fór ég ekki nema hálfa þá vegalengd sem við fórum í dag en var samt dauðuppgefin eftir ferðina. Nú fer ég þessa rúmu tólf kílómetra hvora leið án þess að finna fyrir því, enda fimmtán árum eldri en þegar ég fór þetta fyrst og orðin ólseigur núna. Hinu megin við ána þar sem við höfum oftast endastöð er búið að útbúa mjög góða baðaðstöðu, eða strönd í anni. Það er víða mjög fallegt við ána á þessari leið. Á einum stað er gömul falleg járnbrautarbrú, myndin hér á síðunni er af þeirri brú. Það er líka göngubrú yfir ána, en hún er ekki eins vegleg og hefur þrisvar sinnum orðið undan að láta í flóðum á þeim tíma sem ég hef fylgst með ánni. Að öllu jöfnu er þessi á eins og smálækur, en ef það rignir mjög mikið getur hún orðið foræðisfljót og fer þá yfir bakka sína á láglendinu hér fyrir neðan.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halló Palli og til hamingju með nýju síðuna þína.

Mér líst mjög vel á, búinn að lesa allt sem komið er og hafði gaman af.
Þú átt örugglega eftir að skemmta þeim sem lesa með þínum frásagnarhæfileikum, og af nógu er að taka að segja frá daglegu lífi þeirra í Portugal, sem kom mér allavega mjög "spánskt" fyrir þessa 2 vetur sem ég bjó þarna í sveitinni, en ógleymanleg upplifun var það, svo ég tali nú ekki um að kynnast þér og Austukoti.
Áfram í skrifum Palli
kveðja úr AUSTRI
Jón Grétar