Veður; Skýjað og rigning síðdegis. 18°/11°
Eftir fasta liði var lagt upp í verslunarferð, án þess að vera búin að ákveða ákvörðunarstað. Á leiðinni hér upp úr dalnum var ákveðið að hafa fyrsta viðkomustað í verslun skammt utan við Albergaria. Þar er selt mikið af ýmsum smávörum til heimilishalds og líka skrautmunir. Þórunn hefur gaman af að skoða þetta svona annað slagið. Við keyptum þarna hreinlætisvörur og gróðurmold. En þegar við vorum fyrir utan þessa verslun tók Þórunn eftir því að það er búið að opna stóra kjötverslun í næstu húsalengju. Við ákváðum að líta þarna inn og sjá hvernig þetta liti út. Þetta er hin glæsilegasta verslun. Við höfum verið að leita að heilum kalkúnum en ekki fundið slíka gripi síðan um jól, því okkur finnst kalkúnakjöt mjög gott, en vorum búin með það sem við keyptum um jólin. Það fyrsta sem Þórunn kom augu á í kæliborðinu voru tveir myndarlegir kalkúnar,sem við ákváðum á stundinni að kaupa. Þeir vigtuðu samtals þrettán kíló en það finnst okkur mjög góð stærð, einnig var keyptur einn kjúklingur og svo fengum við eitt bjúga í kaupbæti. Afgreiðslukonan gaf okkur að smakka á svona bjúga og það bragðaðist vel hrátt, en hún sagði að það mætti líka sjóða það og það höfum við hugsað okkur að gera. Kílóið af kalkúninum kostaði 1,98 €
Þegar við vorum komin með allt þetta kjöt fórum við beint heim til að koma því í frysti, en áður en ég fór í að brytja kjötið niður lauk ég við að sements þvo bílaplanið. Það leit út fyrir að það myndi rigna síðdegis en ég ákvað að taka áhættuna og vonaði að það næði að þorna nægilega áður svo að rigningin skemmdi það ekki og ég held að þetta hafi sloppið fyrir horn.
Eftir að hafa fengið okkur snarl að borða var ráðist í að brytja kjötið. Ég úrbeinaði bringurnar, það gekk ótrúlega vel miðað við að ég sé ekki hvar hnífurinn er staddur á hverjum tíma, en með því að þreifa mig áfram og láta hnífinn fylgja beinunum gengur þetta bara vel. Bringan á stærri fuglinum vigtaði tvö kíló úrbeinuð.
Í kvöld eldaði Þórunn svo þessa indælis kjötsúpu með kalkúnakjöti.
Svona í tilefni sumardagsins fyrsta á Íslandi fórum við á kaffihús til að halda upp á daginn og samgleðjast landanum, það er nú ekki hægt að sleppa svona tilefni til að fara á kaffihús.
Þegar Þórunn leit út um eldhúsdyrnar eftir kvöldmatinn sá hún óboðinn gest vera þar á ferð og hann fór eins hratt og honum var mögulegt.
Hún þurfti samt ekki að óttast að hann hlypi hana um koll, því þetta var snigill á villigötum, því það var fátt ætilegt handa honum þarna á marmaranum, svo honum var fært eitt salatblað til að naga. Hann réðist á það með áfergju, líklega búin að vera nokkra stund að sniglast eftir veröndinni. Þórunn rauk til og tók af honum myndir í gríð og erg, er jafnvel að gera sér vonir um að geta notað myndirnar af honum í ljósmynda-samkeppni.
Þegar verið var að ljósmynda snigilinn komu Matthild og Manúel til að sjá hvað um væri að vera, því Þórunn var komin út með sterkan ljóskastara og fleiri græjur.
Ég notaði tækifærið og tók mynd af ljósmyndaranum að störfum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli