Veður: Þoka í lofti fyrst í morgunn, en orðið léttskýjað fyrir hádegi. 18°/9°
Í morgun var mér trúað fyrir að gæta hússins á meðan frúin fór á hárgreiðslustofu til að fá klippingu. Það hefur nokkuð oft komið fyrir þegar hún er að láta klippa sig, að það er tekið töluvert meira af hári hennar en hún hafði hugsað sér, þrátt fyrir góðar útskíringar af hennar hálfu áður en hafist er handa við klippinguna. Svo það fylgir því alltaf nokkur spenningur að sjá hana koma heim úr svona leiðangri, en það má alltaf hugga sig við að hárið vex sífellt svo þetta jafnar sig aftur á tiltölulega skömmum tíma. Í morgunn tókst bara vel til og mín kom heim aftur með hæfilega mikið hár á kollinum, bara mun snyrtilegra en þegar húm fór að heiman.
Meðan mín var fjarverandi fór ég auðvitað í hlutverk fyrirmyndareiginmanns og tók til við matreiðslu. Fyrir valinu í matargerðinni urðu grænmetisbuff og kartöflumús. Ekki mjög flókin eldamennska það. Skella kartöflum í pott og sjóða, síðan að músa þær þegar suðunni er lokið, krydda hæfilega, þá er það komið. Nú það er ekki miklu flóknara að búa til buffin, tína til það grænmeti sem til er og setja í matvinnsluvél ásamt mjöli, eggi og kryddi. Steikja á pönnu við vægan hita. Tilbúið.
Eftir matinn er notalegt að leggja sig út af í eins og hálftíma á meðan verið er að melta það sem í magann var látið. Það er ágætt að hlusta á sögu á meðan, það passar að hlusta á eina hlið á snældu, svo fer það eftir því hvort sagan er skemmtileg eða leiðinleg hvort maður fær sér kríu undir lestrinum.
Næsta verkefni dagsins var svo að þrífa óhreinindin sem sest höfðu á bíla planið við bílskúrinn
í vetur.
Þau voru sko búin að líma sig rækilega föst þar og höfðu hugsað sér að eiga þarna heima lengi lengi. Það tók góða stund fyrir mig og háþrýstiþvottatækið að koma óhreinindunum í burtu, en þau máttu láta í minnipokann að lokum, stóðust ekki ofureflið. Nú svo þetta liti enn betur út sements þvoði ég planið. Það er að segja helminginn af því, vegna þess að ég þarf að láta þetta þorna sem búið er svo ég geti farið með hjólhýsið á sinn stað og þá lokið verkinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli