Veður. Skýjað fram eftir degi, en birti til síðdegis. 10°/20°
Já það er nú eins og það er, enn er maður spenntur fyrir að fá ný leikföng, þó það sé ekki alveg eins spennandi eins og biðin eftir að fá að opna jólagjafirnar sínar þegar maður var barn í sveitinni. Þá voru gjafirnar ekki teknar upp fyrr en búið var að mjólka og það sem verra var að það þurfti líka að skilja mjólkina. Því í þá daga var engin mjólk sótt um jólin og þetta var löngu fyrir tíma kælitanka. Á þessum árum voru aðallega gefnir mjúkir pakkar og mjög fáir.
Ég man sérstaklega eftir einni jólagjöf, en það var vasaljós og framan á því var rauður hólkur svona svipað því sem lögreglan notar. Það var auðvitað farið með það út í myrkrið til að sjá hvernig ljósgeislinn væri og hvað hann drægi langt.
En leikfangið sem ég fékk núna vara af allt annarri gerð eins og vænta má á tölvuöld. Þetta er semsagt forrit og GPS loftnet til að setja í og tengja við fartölvuna og þá virkar hún eins og GPS staðsetningartæki í bílnum. Við eigum að vísu slíkt tæki en skjárinn á því er svo smár að ég get ekkert unnið á það. Þórunn mín getur unni með það, en mig langar til að geta verið virkur við að skipuleggja ferðir þegar við erum á ferðalögum. Ég get ekki lesið á venjuleg kort, en tölvukort ræð ég við með því að hafa viðeigandi búnað í tölvunni. Það var orðin löng bið eftir þessu loftnetiþví það var ekki til í verslunum hér. Í einni verslun var boðið upp á að panta þetta fyrir mig og sagt að það tæki viku, en þegar vikurnar voru orðna fjórar og ekkert gerðist gafst ég upp á biðinni. Næst var svo að leita á netinu og ég fann svona loftnet í Sviss. Það tók vikuna að fá það sent þaðan.
Þetta semsagt kom hér í hús í gærmorgunn og þá var sest við að setja forritin inn í bæði fartölvuna og stóru tölvuna. Þetta tók nokkuð langan tíma ekki síst vegna þess að leiðarvísirinn var ekki notaður fyrr en allt annað þraut eins og venja er hjá mér. Í morgunn var svo sest við að læra hvernig ætti að notfæra sér þetta og búa til leiðir en það er enn nokkuð í land með að því námi sé lokið.
Það var samt farið í stutta ferð síðdegis til að reyna gripinn og þetta skilaði okkur á áfangastað. Vandamálið við að nota GPS hér á landi er sá að það er ekki búið að koma nema um fjörutíu prósent af vegakerfinu hér inn í GPS kortakerfið. En þetta nýtist í öllum stærri bæjum og á þjóðvegunum, en það vantar enn flestar götur í þorpunum.
Eyjólfur Halldórs leit hér inn í morgunn og borðaði með okkur grjónagraut, en það er venja á þessu heimili að vera með grjónagraut á laugardögum. Ég segi að það sé til að marka upphaf eða endir á vikuna, því þegar maður er ekki í vinnu verður að marka vikurnar með einhverju móti öðru en frídögum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli