Veðrið: Heiðskírt 13° / 26°
Þórunn brá sér á markaðinn í morgunn, svona sér til upplyftingar og að skoða hvað væri á boðstólum, en að þessu sinni sá hún ekkert þar sem hentaði henni, svo hún brá sér inn í búð hjá Kínverjunum og þar fann hún blússu og bol sem henni leist vel á og ekki fælir verðið hjá Kínverjunum neinn frá því að versla við þá.
Það eina sem hún keypti á markaðnum var fiskur sem hún eldaði þegar heim kom. Við höfum ekki áður keypt svona fisk erum satt að segja svolítið rög við að kaupa fisk hér,því oft fellur okkur ekki bragðið af fiskinum, en þessi bragðaðist hins vegar mjög vel.
Meðan Þórunn var í burtu fór ég í að hreinsa vatnskút sem er tengdur vatnsdælunni sem dælir vatninu úr brunninum hjá okkur og síðan að reyta arfa úr laukbeðinu. Það liggur bara við að það sé gaman að reyta arfa í svona góðu veðri eins og var í dag og hefur verið undanfarna daga. Það er notalegt að hlusta á nágrannana ræða landsins gagn og nauðsynjar úti á götu, eða heima við hliðið hver hjá örðum. Ég sakna þess töluvert að eldri kona sem bjó hér í nágrenninu er flutt í burtu, því hún og grannkona hennar hinu megin við götuna áttu það oft til að spjalla saman í einn til tvo klukkutíma. Nú eru húsbændurnir í þessum húsum eiginlega teknir við af konunum í að spjalla saman. Ég kalla þá bara rám og skrám, því annar þeirra er svo rámur í röddinni.
Nú þarf ég líklega að kynna til sögunnar þau Geira og Rósu. Þau heita raunar Ásgeir og Sigurrós. Þau voru í heimsókn hjá okkur í þrjár vikur síðast liðið sumar til að kinna sér aðstæður hér, því þau höfðu hug á að flytja til Portúgals. Þau hafa búið í Svíþjóð síðast liðin fimmtán ár og áttu hús í Gautaborg, sem þau eru nú búin að selja. Þau eru rétt rúmlega sextug, en hann er orðinn öryki vegna skemmda í hálsliðum. Þeim sem sagt leist svo vel á sig hér að þau ákváðu að flytja hingað og nú erum við búin að útvega þeim íbúð til leigu.
Þetta er íbúð á fjórðu og efstu hæð í blokk, glæsileg íbúð, eiginlega penthouse íbúð með mjög stórum svölum. Við vonum að þau verði ánægð með íbúðina, en það er svolítið erfitt að velja fyrir aðra. Þau eru búin að fá myndir af íbúðinni og leist vel á það sem þau sáu á myndunum.
Þau lögðu upp frá Gautaborg í gærkvöldi, byrjuðu á að taka far með ferju frá Gautaborg til Kílar og þangað komu þau klukkan sjö í morgunn og hófu þá strax aksturinn hingað suður eftir. Þau reikna með að verða þrjá daga á leiðinni. Núna klukkan níu fengum við SMS boð frá þeim, þar sem þau sögðust vera komin á hótel í nágrenni Brussel. Ég á von á að þau leggi upp í næsta áfanga snemma í fyrramálið því þau eru miklir morgunhanar.
Eftir hádegi fórum við að láta leigusalann þeirra vita hvaða dag þau kæmu í íbúðina. Hjónin sem eiga íbúðina voru að byggja sér einbýlishús, sem þau voru að flytja í en ætla sér að eiga þessa íbúð áfram og leigja hana út.
Þau sögðust ekki vera alveg búin að flytja allt út, en það yrði örugglega allt tilbúið þegar þau kæmu á föstudag. Við skulum vona að svo verði. Bóndinn bar því við að það hefði brotnað gírkassi í bílnum sem notaður var við flutningana, ekki verri afsökun en hver önnur!!
Við töluðum líka við fasteignasalann sem sá um að gera leigusamninginn, hvort hún vildi taka að sér að leiða Geira og Rósu fyrstu skrefin í gegnum frumskóg skrifræðisins hér á meðan þau væru að skrá sig hér. Þau geta ekki einu sinni sótt um að fá síma hér fyrr en þau eru búin að fá úthlutað sérstakt viðskiptanúmer. Það er nógu erfitt fyrir innfædda hér að rata um völundarhús skrifræðisins og oftar en ekki lenda þeir í blindgötu.
Síðdegis unnum við svo smá stund í garðinum og þá færði Þórunn mér fyrstu rós sumarsins. Bleika mjög fallega rós. Þessar bleiku rósir voru hér í garðinum þegar ég keypti húsið og eru mjög duglegar. Ég er búinn að fjölga þeim mikið, tek bara af þeim afleggjara og sting niður í moldina og þar með er komin ný rós. Það er líka búið að kaupa ýmis fleiri afbrigði og liti af rósum, en ég held mest upp á rauðu rósirnar. Bæði finnst mér alvöru rós eiga að vera rauð og svo er ilmurinn af þeim líka bestur. Ég hef alltaf náð því að færa Þórunni fyrstu rós sumarsins en nú varð hún á undan, ég tók að henni loforð um að ég mætti færa henni fyrstu rauðu rósina
Það verða ef til vill rósbleikir draumar sem mann dreymir í nótt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli