Veður í gær: 12° / 25°. Þoka fyrst í morgun, en síðan léttskýjað.
Veðrið í dag: 13°/27° Bjartviðri.
Það var svo mikið að gera í gær að það vannst ekki tími til að skrifa í dagbókina, svo þetta verður tvöfaldur skammtur í dag.
Í gærmorgunn var byrjað á að fara í búðir, við áttum von á gestum síðdegis, svo það þurfti að kaupa svona sitt lítið af hverju.
Síðan að skúra gólf, búa til mat og meira að segja þurftum við líka að borða matinn sjálf. Nú þar næst var að vinna í garðinum og Þórunn var að laga til blóm og snyrta eitt og annað bæði úti og inni.
Guðmundur og Jónína, en það eru nöfn gestanna komu svo hér um fimmleitið, en þetta er níunda árið í röð sem þau heimsækja Portúgal. Venjulega hafa þau tekið tjaldið sitt með og ferðast hér um í einn mánuð í hvert sinn og gist í tjaldinu allan tímann. Í fyrra fengu þau að skilja tjaldið eftir hérna hjá okkur, svo þau þyrftu ekki að vera að drösla því á milli landa, því þau fara ekkert nema til Portúgals, nema í stuttar ferðir. Í þetta sinn stoppa þau bara í fjóra daga hér í landi og á þeim tíma ætla þau að skoða jafnmörg hús sem eru til sölu, því þau dreymir um að eignast hús hér í landi og flytja hingað síðar meir.
Þau vígðu fyrir okkur nýja svefnsófann sem við keyptum í haust og létu vel af að sofa á honum, enda svefnþurfi, því þau héldu til á flugstöðinni í Frankfurt síðustu nótt, svo þau náðu ekki nema að fá sér smákríur.
Þau lögðu svo af stað suður í land að skoða fleiri hús strax í morgunn og við eigum svo von á þeim til baka hingað á fimmtudag, en svo fara þau í flug snemma á föstudag.
Það lá við að við þyrftum að flýja dalinn hérna í gær, því hann þýski Malli eins og við köllum hann, því þrír næstu nágrannar okkar heita allir Manúel, enda frændur og einhvern veginn verðum við að aðgreina þá. Þýski Malli vann í Þýskalandi í mörg ár. Jæja aftur að efninu, þýski Malli og hans frú voru að bera lífrænan áburð á land sem þau eiga hérna nærri okkur og lyktin af þessu var alveg að fara með okkur, þar til að það gerði aðeins golu, þá lagaðist þetta. Síðdegis plægði hann þetta góðgæti svo niður og á eftir það er orðið allt í lagi að búa hér áfram. Þessi Manúel er mikill fyrirmyndar bóndi og allt mjög snyrtilegt hjá honum og vel að öllu staðið. Hann er meðal annars með býflugnarækt og einn daginn hringdi hann dyrabjöllunni hér og bað leyfis að fá að fara inn á lóðina hjá okkur til að sækja búpening sem hann taldi sína eign en væri nú á okkar landi. Þá hafði ein drottningin hans verpt eggjum sínum í té hjá okkur og nú var þetta að klekjast út og þetta var alveg ótrúlegur fjöldi af flugum sem var þarna saman kominn. Til þess að fanga þær notaði hann aðallega þá aðferð að úða á þær vatni, því þá urðu þær svo þungar á sér og féllu til jarðar og þá sópaði hann þeim bara upp og setti þær í kassa, síðan fór hann með þær og setti í býflugnabúin sín.
Hrafn næst elsta barnabarnið mitt varð tuttugu og fjögurra ára í dag. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, því þegar ég hugsa til baka finnst mér bara örstutt síðan hann var smá polli. Staðreyndin er samt sú að nú er þetta orðinn stór og myndarlegur maður.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli