Veður: 11,9/35,1° morgunþoka/léttskýjað.
Hjónin í Frosos buðu okkur með sér og fjölskyldunni í skógarferð í dag. Þetta var eiginlega dálítið eins og óvissuferð fyrir okkur, því við vissum lítið meira en að það ætti að vera í skugga trjáa fyrir sólinni og að skógurinn væri í nágrenni við bæ sem heitir Vagos og er í um það bil 20Km. fjarlægð héðan. Við höfðum áður komið á útivistarsvæði í nágrenni Vagos, þar sem eru stór tré og venjulegur skógarbotn og við töldum að þangað væri förinni heitið í dag, en svo var ekki. Okkur var sagt að mæta í Frosos klukkan tíu sem við og gerðum. Þar kom húsmóðirin til dyra og settist inn í bílinn hjá okkur og vísaði veginn að kirkju bæjarins, þar sem við þurftum að bíða smástund eftir að messu lyki og bóndinn væri tilbúin til að koma með okkur, en hann syngur í kirkjukórnum. Það kom í ljós að aðrir úr fjölskyldunni fóru fyrr um morguninn með mat og annan búnað til að tryggja sér pláss á góðum stað. Þau hjón vísuðu svo veginn á staðinn á leiðarenda kom í ljós að þetta er útivistarsvæði við kirkju og síðar um daginn átti að vera guðþjónusta fyrir prófastdæmið. Slík samkoma er einu sinni á ári, síðustu helgina í júní. Kirkjukórarnir frá öllum kirkjunum syngja saman og ég heyrði þegar söngstjórinn var að æfa þá rétt áður en guðþjónustan byrjaði og það þurfti að endurtaka hale lú ja mjög oft áður en rétta tóninum var náð og getur verið að svo hafi verið með fleiri atriði,en þetta var það sem ég heyrði á minni göngu um svæðið. Þarna er góð aðstaða til útiveru sléttar og fínar grasflatir og borð og bekkir í skugga trjánna til afnota fyrir fólk. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að þarna var að hætti Portúgala verið með allt of mikinn mat á boðstólum. Tengdasonur hjónanna sem búinn er að vera í Englandi er kominn með þá sýn á hve mikið er borið fram við svona tækifæri „afgangurinn verður að vera nægur fyrir fjölskylduna að minnsta kosti í eina viku, annað er nánasarlegt“, sagði hann. Þórunn bjó til ostaköku, sem við lögðum á borð með okkur og þó hún líkaði vel að þá eigum við afgang en aðeins í einn eða tvo daga, svo við eigum margt ólært hér.
Ekki auðvelt að ná rétta tóninum í hal e lú ja.
2 ummæli:
Mér varð nú litið á hitatölurnar þínar. Hvernig í ósköpunum farið þið að því að gera neitt í svona hita? Við komum frá Danmörku í gærkveldi og þá var hitinn 5°í Keflavík. Mikið væri nú gott að geta jafnað þessu svolítið á milli okkar.
Gaman að lesa um óvissuferðina.
Kær kveðja frá okkur Hauki.
Velkomin heim og takk fyrir innlitið.Við erum svo heppin að þurfa ekki að vinna úti nema þegar okkur hentar og þar af leiðandi gerum við helst eitthvað úti á morgnana og kvöldin þegar heitast er í veðri. Já það kæmi sér vel fyrir alla ef hægt væri að jafna hitann eitthvað.
Kveðja
Skrifa ummæli