Veður: 12,9/38,9° léttskýjað.
Það er margskonar ávinningur af því að ferðast, fyrst og fremst sér maður annað landslag og umhverfi en heima hjá sér, svo sér maður líka annað mannlíf, borðar annann mat en venjulega og síðast en ekki síst þá er svo gott að koma heim aftur og njóta alls þess sem heimili manns og næsta nágrenni hefur að bjóða. Ferðalögum fylgir smávegis óvissa, þó búið sé að skipuleggja ferðalagið þá gengur ekki alltaf allt eins og ráð var fyrir gert, það fengum við að reyna í síðasta ferðalagi. Áður en við lögðum af stað var ég að spá í hvar við myndum gista og fór á netið til að sjá hvað væri í boði. Jú ég fann heimasíðu þar sem boðin var gisting í gömlu og virðulegu húsi. Það voru flottar myndir af umhverfinu, fallegur garður og að því er virtist glæsileg herbergi. Sem betur fer var ekki hægt að panta gistinguna á netinu, en það var gefið upp símanúmer. Þórunn hringdi og pantaði gistinguna og það var nokkur eftirvænting að gista á að því er virtist í svona veglegu húsi í fallegu umhverfi. Eftir að hafa spurt til vegar fundum við staðinn, en ekki var heimreiðin glæsileg, malarvegur og þyrnigróður beggja vegna vegarins, sem við vorum hálfsmeik um að myndi rispa bílinn, en sem betur fer slapp bíllinn óskemmdur. Heim að húsinu komumst við, jú það var rétt að garðurinn umhverfis var snyrtilegur og húsið ágætlega málað, að undanskyldum hurðum og gluggum. Þegar þarna var komið sögu var mesti glansinn farinn af að gista þarna, en við höfðum gert okkur talsvert háar vonir um glæsilega gistingu og öðruvísi en á nýtísku hóteli. Eftir nokkra leit tókst okkur að finna móttökuna, sem var á jarðhæð og síður en svo glæsileg og ekki bætti úr fúkkalyktin sem var þarna inni. Á endanum fannst svo bjalla og eftir nokkra bið kom kona til að afgreiða okkur. Það stóð heima að við áttum pantaða gistingu þarna, sem við afþökkuðum með það sama. Konan mátti eiga það að hún tók afpöntuninni ljúfmannlega og vísaði okkur á greiðfærari veg til baka. Nú áttum við enga gistingu vísa fyrir nóttina, en höfðum svo sem ekki stórar áhyggjur af að finna ekki sama stað til að gista. Á firsta hóteli sem við komum var laust herbergi, gott hótel með öllum nútíma þægindum og án fúkkalyktar.. Segir ekki einhvers staðar að enginn ráði sínum næturstað, allavega varð okkar næturstaður annar en við höfðum ráðgert þessa nótt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli