Veður: 12,3/32,5° að mestu léttskýjað.
Við tókum góða stund í morgunn að vera í bændaleik, byrja á að taka upp laukinn, en uppskeran af lauk virðist vera í meðallagi. Nú svo þurfti að binda tómatana, því tómatplönturnar þurfa stuðning, það er stutt í að við getum farið að borða tómata úr garðinum. Ávaxtatrén fengu nammi að borða, það er að segja áburð og vökvun.
Það hafa oftast verið kettir til heimilis hér í Austurkoti, þeir hafa allir gefið sig fram sem sjálfboðaliða og þegið mat að launum, sá fyrsti fékk líka húsaskjól, en þeir sem á eftir komu hafa orðið að halda sig utandyra.. Þetta hafa yfirleitt verið villikettir, en flestir hafa orðið gæfir með tímanum. Heimilið er búið að vera kattarlaust nú í tvo mánuði og ég saknaði þess að hafa ekki kött, því mér finnst þeir vera svo vinalegir. Í síðustu viku gaf sig fram nýr sjálfboðaliði, alveg grindhoraður og nær dauða en lífi af hungri. Þetta er fyrrverandi heimilisköttur, því hann mjálmar og vill láta gæla við sig. Þó hann væri að farast úr hungri þóttist hann hafa efni á að vera matvandur. Nú er búið að baða kisa, en það verk tók hún kristín sem var gestur hér að sér. Kisi kvartaði á meðan á baðinu stóð, en virtist vera nokkuð sáttur þegar því var lokið.
1 ummæli:
Þið ættuð að eiga næg vítamín í kroppinn ykkar þegar haustar og öll uppskeran verður komin í hús.
Góða helgi.
Skrifa ummæli