20 júlí 2008

Merkilegt safn.

Veður: 15,9/34,5° þokuloft fyrst í morgun, en síðan léttskýjað.

Þá er komið að því að segja frá síðari degi ferðalagsins okkar í vikunni sem nú er nýbúin að kveðja. Þennan dag ákváðum við að fara lítið eitt lengra til suðurs í lítið þorp sem heitir Sobreiro, því þar er staðsett mjög merkilegt og sérstakt safn. Mér finnst fremur leiðinlegt að skoða söfn, en það gegnir öðru máli með þetta safn, því það er einhvern veginn meira lifandi en venjuleg söfn. Safnið er í mörgum litlum húsum og svo er líka eftirlíkingar af þorpi þar sem eru brúður við ýmis störf. Það eru líka brúður og sumar í fullri stærð þar sem líkt er eftir íveruhúsum fólks fyrir svo sem rúmum eitt hundrað árum. Malarafjölskyldan er í sínu húsi með þá húsmuni í kring um sig sem þá tíðkuðust. Skraddarinn er við sína iðju og sömuleiðis úrsmiðurinn og ýmsir fleirri. Þarna er lítil kirkja, járnsmiðja, trésmiðja,bakarí, bjórstofa, verslun, skóli, bátur og veiðarfæri. Þetta er sem sé safn um forna lifnaðarhætti og hvernig fól bjó og verkfærin sem notu voru á þeim tíma. Maðurinn sem stofnaði þetta safn er enn á lífi 86ára gamall. Hann var leirkerasmiður, en jafnframt svona mikill safnari og vildi leyfa öðrum að njóta þess með sér. Fjölskyldan vinnur enn við leirmunaframleiðslu og er með verslun þarna á svæðinu,þar sem hægt er að kaupa leirmuni frá þeim og fleirri aðilum. Brauðgerðin er líka starfrækt og þar keyptum við brauð framleitt eftir gömlum hefðum. Læt eina mynd úr safninu hér á síðuna, en fleirri myndir er hægt að sjá með því að smella á „Myndir“ hér til hæri á síðunni.

Skraddarinn Skraddarinn að störfum.

Engin ummæli: