14 júlí 2008

Víggirðing

Veður: 8,4/36,7° léttskýjað.

Notuðum daginn í dag til að víggirða kotið fyrir köttum, því það hefur margsinnis borið við að kettir kæmu hér inn óboðnir, þegar eldhúsdyrnar eru opnar. Fórum í morgunn og keyptum acrylplötu og lamir á hana til að setja utan við hurðina að neðanverðu. Ég set mynd af þessu hér fyrir neðan, myndin segir meira en mörg orð. Við þurftum að fara tvær ferðir til að fá réttar lamir á þetta, því ég athugaði ekki í byrjun að það er ekki sama hvort hlerinn á að opnast til hægri eða vinstri, en nú veit ég betur.

Það er oft undarlegt hvernig maður hagar sér með að kaupa hluti, eða kaupa ekki hluti. Ég hef aldrei látið verða af því að kaupa mér handhæga borvél, af því ég á borvél sem er stór og oft óhentug og hef svo sem komist af með að nota hana. Á sama tíma er búið að kaupa tölvur í stórum stíl og margt annað sem er mikið dýrara og hefði vel verið hægt að vera án. Semsagt í morgunn þegar þessi stórframkvæmd var framundan var ákveðið að fjárfesta í lipurri borvél og þvílíkur munur að vera með þægilegt verkfæri í höndunum. Þetta var fjárfesting upp á heilar 29 evrur. Eftir á skil ég ekki hvers vegna þetta verkfæri var ekki keypt fyrir 25 árum.

002 Hér er hlerinn upp við vegginn, þegar ekki þarf að nota hann.

003 Hér er hlerinn fyrir dyraopinu og hurðin opin til að fá inn ferskt loft, en ekki óboðna ketti.

 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er snilldarlausn hjá ykkur. Gott að þurfa ekki lengur að bíða eftir baðherberginu á meðan köttur er að athafna sig þar.
Til hamingju með nýju borvélina. Ég skil vel þetta með þá gömlu. Manni þykir einfaldlega oft svo vænt um þau verkfæri sem hafa hjálpað manni í gegnum tíðina að það hvarflar ekki að manni að þau séu orðin barn síns tíma og ný og betri komin á markaðinn.
Kær kveðja,