Ég er með fartölvu í töskunni, þarf ég ekki að taka hana upp úr töskunni spurði ég á flugvellinum þegar kom að vopnaleitinni. Jú takk var svarið, svo ég opnaði að því er ég hélt mína tösku og ætlaði að grípa fartölvuna en greip í þess stað í kvenfatnað. Það höfðu sem sé víxlast töskurnar hjá okkur Þórunni. Léttruglaður þessi gamlingi hefur eftirlitsmaðurinn hugsað, en sagði ekkert. Þegar taskan hennar Þórunnar minnar var komin í gegn um vopnaleitina og nú á minni ábyrgð kom í ljós að Þórunn hafði laumað í hana einhverju stórhættulegu tóli sem ég varð nú að svara til saka fyrir. Gjöra svo vel og opna þessa tösku sagði eftirlitskonan við færibandið og þegar taskan opnaðist fór hún að gramsa í töskunni með hanskaklæddum höndum og dró upp sívalning og spurði mig hvaða tól þetta væri og þegar ég gaf þá skíringu að þetta væri nú baralítill þrífótur fyrir myndavél var samþykkt að leyfa þessu tóli að fara með í ferðina, þar með hélt ég að þessu væri lokið, nei svo var nú ekki, nú var kölluð fram mynd á skjá af innihaldi töskunnar til að staðsetja nánar fleiri hættulega hluti og eftir að hafa skoðað innihaldið vel á skjánum renndi hún sinni hanskaklæddu hendi á kaf í töskuna og kom upp með hættulegt tól sem ekki mátti fara með inn í flugvél af öryggisástæðum. Handavinnukonunni henni Þórunni minni hafði orði það á að setja niður í töskuna handavinnu og þar með flaut ein heklunál, en slíkt tól telst víst til hættulegra hluta inni í flugvél.
Svona hófst sem sé byrjunin á ánægjulegri ferð til Madeira, en á Madeira vorum við frá mánudegi til fimmtudags í síðustu viku.
Það er ekki nema tæpra tveggja stunda flug frá Porto til Madeira, svo þar vorum við lent klukkan ellefu á mánudeginum og þar beið eftir okkur bíll og bílstjóri frá ferðaskrifstofunni sem við ferðuðumst með og flutti okkur beint á hótelið niður við strönd í höfuðborginni Funchal og á leiðinni fengum við fræðslu um eyjuna og eyjarskeggja. Íbúafjöldi er um 250þús. Og helmingur eyjaskeggja býr í höfuðborginni og hefur að mestu leiti framfæri sitt af þjónustu við ferðamenn, en á landsbyggðinni er stunduð vín og bananarækt.
Madeira er fjöllótt eldfjallaeyja með þröngum dölum og bröttum hlíðum, það er ekkert undirlendi við sjóinn, eini sæmilega slétti bletturinn sem við sáum á eyjunni er uppi á fjöllum í yfir 1000 m hæð, en gróður er þarna upp á efstu fjallatinda.
Vegagerð er mjög erfið þarna og til marks um það er að á leiðinni frá flugvellinum inn í höfuðborgina sem er um 20 km leið er farið í gegnum þrettán jarðgöng og nokkrar brýr yfir þrönga dali.
Við fórum í eina mjög fróðlega dagsferð um eyjuna ásamt tveim öðrum hjónum í lítilli rútu. Bílstjórinn var mjög góður ökumaður og ekki síðri leiðsögumaður, svo við fræddumst mikið um þá staði sem við komum við á og almennt um lífið og tilveruna á eyjunni.
Hina dagana notuðum við til gönguferða um borgina og einu sinni fórum við í kláf sem gengur upp í fjallið fyrir ofan borgina, þar fengum við góða yfirsýn yfir borgina.
Að vera á Madeira á þessum árstíma er dálítið eins og að vera á einhverri eldriborgara nýlendu, því mest af fólkinu sem maður mætir úti á götu er nokkuð fullorðið, það virtist sem fólk frá Bretlandi væri þarna í miklum meirihluta, enda hittum við hvergi afgreiðslufólk sem ekki var mælandi á enska tungu.
Hótelið sem við vorum á var heill heimur út af fyrir sig, ég var meira en venjulega eins og átjánbarna faðir í álfheimum þarna, því ég hef aldrei áður verið á svona stóru og flottu hóteli, fimm stjörnu ekki dugði minna fyrir sveitalúðana úr ValeMaior. Tvær útisundlaugar voru við hótelið og sjór í þeim báðum og önnur var upphituð og aðstaðan við sundlaugarnar er öll hin glæsilegasta. Einnig á hótelið bryggjustúf í fjörunni, svo fólk getur synt og svamlað í sjónum en fjaran er grýtt svo það er ekki hægt að liggja í henni, en það er bætt upp með góðri aðstöðu við laugarnar. Það er líka ein innisundlaug og fleira til heilsuræktar. Það er víst óhætt að segja að þetta sé hótel með öllu sem hægt er að hugsa sér svo gestum þess líði vel á meðan þeir gista þar.
Morgunverður var innifalinn í gistingunni og þar ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, því úrvalið af mat er alveg gríðarlegt og að sjálfsögðu vantaði ekki egg og beikon fyrir Bretana.
Brú og jarðgöng á veginum frá flugvellinum.
Horft ofan á bæ við norðurströndina.
Það er ekki auðvelt að rækta við þessar aðstæður.
Veitingahúsið sem við borðuðum á í ferðinni um eyjuna.
Sýnishorn af því hvernig vegirnir voru höggvnir inn í bergið, en nú er búið að endurbæta vegakerfið verulega, þó ekki sé hægt að mæla með því að lofthræddir ferðist mikið þarna um eyjuna.
1 ummæli:
Góðan og blessaðan daginn Palli minn
Það er alltof langt síðan ég hef kíkt á síðuna þína. Þú ert svo góður penni, gaman er að lesa ferðasögurnar þínar. Mikið eruð þið dugleg að ferðast og kynnast nýjum aðstæðum. Við sitjum hér í snjó og frosti, en það er stundum alveg yndislegt þegar það er snjór úti og sólin skín. Nýjustu fréttir!! Sigurlaug er komin með nýtt hné og er hin sprækasta, þetta gengur svo ljómandi vel hjá henni, bara rúmur mánuður síðan hún var skorin. Við hjónin erum alltaf að læra en það sér nú fyrir endann á því nú í vor.
Við biðjum öll voða vel að heilsa og vonum að þið njótið góða veðursins. Ég gleymi aldrei dögunum sem við vorum hjá ykkur :-)
Knús
Áslaug og hinir í fjölskyldunni
Skrifa ummæli