Veður: 3,5°/25,9° léttskýjað.
Ég vona að máltækið“allt er þá þrennt er“ sé enn í fullu gildi, því vatnsdælan í brunninum og hlutir sem henni tengjast eru búnir að vera með óþarfa dynti upp á síðkastið.
Þetta byrjaði með því að einn daginn þegar ég opnaði krana og ætlaði að fá mér vatn að drekka kom ekkert vatn en í þess stað heyrðist bara soghljóð frá krananum eins og hann væri að drekka loft, í stað þess að gefa mér vatn í glasið. Ég út að brunni til að aðgæta hvað væri á seiði og sá að ljós sem sýnir þegar dælan er í gangi logaði, sem benti til að hún væri að vinna sitt verk, en samt kom ekkert vatn inn á kerfið. Þá lá næst fyrir að taka lokið af brunninum og sjá hvað væri að gerast þar niðri og þá kom í ljós að slanga sem tengir dæluna við húskerfið hafði smokkast af dælunni. Við Þórunn hjálpuðumst að við að ná dælunni upp, en það er nokkuð erfitt, því brunnurinn er 11 metra djúpur svo slangan og dælan eru nokkuð þung, en það hafðist að gera við bilunina og koma dælunni aftur á sinn stað. Nokkrum dögum síðar bilaði svo þrýstirofi sem stjórnar dælunni og það varð til þess að hún var stöðugt í gangi. Mér tókst að endurstilla þrýstirofann og vonaði að þar með væri öllum kenjum þessa kerfis lokið, en svo reyndist ekki vera, því nokkrum dögum síðar sá Þórunn að slangan frá dælunni var farinn að leka, en sem betur fer var lekinn þar sem gott var að komast að honum að þessu sinni og í dag var gert við þessa bilun og vonandi er enn í fullu gildi. Allt er þá þrennt er:
Engin ummæli:
Skrifa ummæli