Veður: 13° / 26° heiðskírt.
Í dag var aftur lagt upp í verslunarleiðangur með þau Rósu og Geira. Okkur fannst þau vera nokkuð fljót að ákveða sig í gær svo við tókum eiginlega af þeim ráðin í morgunn og fórum með þau í aðra húsgagnaverslun Í þessari verslun voru bæði ódýrari og fallegri rúm en þau voru að skoða í gær, svo þau ákváðu að kaupa þau og bættu líka við eldhús, eða borðstofuborði. Þetta fá þau sent heim á föstudag. Einnig keyptu þau lítinn bakarofn í þessari verslun, en hann gátu þau tekið með sér heim. Þá var næst haldið í búðina þar sem þau voru að skoða þvottavél og ísskáp og gengið frá kaupum á þessum hlutum. Þetta verður sent til þeirra á fimmtudag.
Næst var farið í stórmarkað til að kaupa hreinlætisvörur, því þeim finnst íbúðin vera langt frá því að vera nógu hrein. Þau eru strax byrjuð að skrúbba og skúra.
Þegar öllum þessum innkaupum var lokið buðu þau okkur að borða, enda klukkan að verða eitt þegar þessu var lokið.
Þau skiluðu okkur hér heim eftir þetta ferðalag ,en fóru til síns heima til að þrífa.
Þau komu svo aftur síðdegis og þá var ég búin að baka vöfflur handa okkur.
Matthild grannkona okkar kom í dag til að biðja Þórunni um að hjálpa þeim að koma af stað DVD: diski sem þau voru með. Sonur þeirra var búinn að kenna þeim á tækið, en þau voru búin að gleyma hvernig átti að bera sig að við að koma þessu tóli af stað. Þórunni tókst það ekki frekar en þeim. Þessi diskur sem þau voru með er um Fatima. Þessi Fatima taldi að María mey hefði birst sér og tveim systkinum hennar að mig minnir tvisvar. Nú er Fatima komin í dýrðlingatölu og mikill átrúnaður á hana og staðinn þar sem þeim á að hafa birst sýnin forðum daga. Fólk fer í pílagrímsgöngu á þennan stað og gengur þá oft mjög langar vegalengdir og oft fer það síðustu metrana skríðandi á hnjánum. Ég hef sjálfur séð það vera skríðandi síðasta spölinn að helgistaðnum. Einmitt núna þessa dagana er fólkið í hópum á vegunum hér í grennd til að ná til Fatima fyrir 13. maí en það var sá dagur sem María á að hafa birst í fyrra sinnið. Þess má geta að héðan eru um 140 Km. til Fatima.
Það er gífurlegur mann fjöldi saman komin í Fatima 13. maí, hefur náð því að komast í eina milljón.
Sveitar félagið hér býður eldra fólki frítt far til Fatima einu sinni á ári og sú ferð verður farin þann 28. maí í ár.
Matthild grannkona okkar er búin að láta okkur vita af þessari ferð, ef við viljum vera með, en ég kann ekki að meta svona átrúnað svo ég held að ég láti það eiga sig að fara. Nágrannar okkar fara þetta á hverju ári og ég kannast við nokkra sem hafa lagt á sig að ganga þetta. Ég þekki líka einn sem hét á Fatimu og lofaði að fara á staðinn ef áheitið gengi eftir, en sá sagðist nú bara koma akandi í sínum bíl, það fylgdi ekki sögunni hvort hann hafi fengið óskir sínar uppfylltar eða ekki.
Manúel granni á líka stóra bók um Fatima og hann er stundum úti á verönd hjá sér að lesa upp úr bókinni fyrir Mtthild, því hún er ekki læs, þó er hún ekki nema 67 ára að aldri. Pabbi hennar sá ekki að það væri neinn tilgangur fyrir stelpur að vera að læra að lesa og því fékk Matthild enga skólagöngu. Hún er ekki enn búin að sætta sig við þessa ákvörðun föður síns.
1 ummæli:
Loose [url=http://www.COOLINVOICES.COM]invoice[/url] software, inventory software and billing software to beget gifted invoices in bat of an eye while tracking your customers.
Skrifa ummæli