Veður: 0,9°/21,2° heiðskírt.
Ekki veit ég hvers vegna mér tókst ekki að festa svefn síðurtu nótt fyrr en undir morgunn, en eins og oft vill verða þegar ég næ ekki að sofna fer ég að velta ýmsu fyrr mér og í nótt kom upp í huga mér hvort ekki væri möguleiki á að færa til húsgögn í hér í Austurkoti. Það er raunar nokkrum sinnum búið að færa til húsgögn hér og hjónarúmið er meðal annars búið að koma við í öllum herbergjum hússins og allar líkur á að það fái að halda sig áfram þar sem það er nú niðurkomið. Í nótt var ég fyrst að spá í hvort ekki gæti farið betur í skrifstofunni hjá okkur og þær vangaveltur leiddu svo til þess að mér fannst sem það myndi koma vel út að vera með skrifstofuna þar sem stofan er og öfugt. Ég bar þessa hugmynd undir Þórunni klukkan fjögur í nótt þegar hún rumskaði, svo hún gæti sofið á hugmyndinni til morguns, sem hún og gerði og eftir að hafa spáð í þetta um stund var ákveðið að ráðast í þessar breytingar. Þetta var talsverð vinna, en við vorum búin að koma öllu fyrir um kaffileytið og erum bara reglulega ánægð með árangurinn. Eins gott að ég sofi almennilega í nótt, svo ekki verði höfð endaskipti á húsinu á morgunn.
1 ummæli:
Já þær geta verið talsverðar afleiðingarnar af svefnleysinu. Ég hef aldrei sofið verr en seinni partinn í vetur og afleiðing þess er þó nokkur. Ég kem að því í blogginu mínu næstu daga.
Ég óska þér innilega til hamingju með afmælið þitt. Ég sé að Þórunn hefur gert daginn eftirminnilegan fyrir þig að vanda.
Kær kveðja frá okkur frænda.
Skrifa ummæli