Veður: 4,4°/15,7° úrkoma 7 mm. Smáskúr í morgunn, en síðan að mestu léttskýjað.
Í morgunn var ákveðið að verkefni dagsins yrði að fara í IKEA í Porto til að fá sænskar kjötbollur að borða og til að kaupa þurrkgrind fyrir þvott í stað þeirra sem kettirnir brutu fyrir okkur. Það hljómar ekki sennilega að segja að kettir hafi brotið þurrkgrind, en er satt engu að síður, raunar er ég aðeins samsekur í þessu máli, því eitt sinn er við brugðum okkur af bæ sá ég að það var mikill matur eftir á diski kattarins hér á veröndinni og til að forða því að frændur hans stælu matnum datt mér það snjallræði í hug að setja diskinn upp á þurrkgrindina, því þar dytti engum ketti í hug að leita þar að mat. Grindin er um 1,8 m á hæð en stóð við borðið á veröndinni svo það var ekki mjög hátt af borðinu upp á grindina. Einhver köttur með lyktarskinið í lagi hefur átt leið þarna framhjá og vippað sér upp á grindina, en við það hefur grindin oltið um koll og brotnað við fallið og sjálfsagt hefur kisa brugðið illilega.
Matsalurinn í IKEA er á efri hæð hússins en þar eru einnig húsgögn og innréttingar, en á neðri hæðinni er vörulager og smávörur. Þegar við vorumbúin að koma bollunum á sinn stað tók ég stefnuna á stigann niður þar sem ég vissi að grindina væri að finna, en mín var nú ekki á því að sleppa góðri gönguferð um salinn þar sem húsgögnin eru og þar sem ég veit að það er bráðholt að fara í gönguferðir féllst ég umyrðalítið á að fara þessa gönguleið, en málið er að ég hafði ekki hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að fara lengri leiðina, eins og konum er lagið þegar þær eru komnar inn í verslun.
Grindina fundum við og eins og gengur datt sitthvað smáræði í viðbót ofan í körfuna, en það er nú bara eins og vera ber í góðri verslunarferð.
Grindin sem keypt var í stað þeirrar sem kisa braut.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli