Síðustu helgi eyddum við á Lissabonsvæðinu. Það var boðið upp á pakkaferð þangað með hópferðabíl og innifalið í pakkanum var bílferðin, gisting á hóteli eina nótt, fullt fæði, aðgangsmiði á sýningu í spilavítinu í Estroil, ferð til Sintra og útsýnisakstur um Lissabon.
Fararskjótinn, mjög þægilegt farartæki.
Ferðafélagarnir fjörutíu talsins voru allir á seinna táningsskeiðinu eins og við.
Við lentum í sæti í bílnum fyrir aftan tvær vinkonur og þá kom sér vel að vera með heyrnartæki sem hægt er að slökkva á. Ég get bara ómögulega skilið hvernig hægt er að tala svona mikið og hátt í svona langan tíma í einu, það vildi svo vel til að það voru laus sæti aftar í bílnum svo við færðum okkur eins langt frá vinkonunum og hægt var.
Á laugardeginum átti að skoða höll uppi í Sintraflallinu, en þá var bæði þoka og rigning svo það var hætt við það en þess í stað var skoðuð höll í Sintra og ég held að það hafi bara verið góð skipti. Þessi höll er í góðu ásigkomulagi og það er talsvert af húsgögnum í henni, sem gerir hana áhugaverðari til skoðunar.
Mynd úr einum af sölum hallarinnar í Sintra.
Um kvöldið var svo farið í spilavítið, við höfðum klukkustund til að skoða okkur um þar áður en sýningin byrjaði. Mér fannst eitthvað ónotalegt að vera þarna og sjá fólk í hundraða tali sitja við spilakassa og freista gæfunnar. Það vantar ekkert á flottheitin þarna inni, lifandi tónlist og allt það, en samt langar mig ekki þangað inn aftur. Þar sem sýningin fer fram er veitingasalur og fólk getur byrjað á að fá sér að borða og setið svo áfram og notið sýningarinnar, eða gert eins og við komið þegar sýnigin er að hefjast og setið þá við borð og fengið einn drykk sem er innifalinn í aðgangseyrinum, en þeir sem vilja meiri vökvun verða að greiða fyrir hana aukalega. Það kemur mikill fjöldi fólks fram í þessari sýningu og ekkert til sparað í lýsingu og litfögrum búningum. Þarna koma fram dansarar fimleikafólk, svona að nokkru leiti eins og í sirkus. Ég sá illa það sem fram fór á sviðinu en hafði samt gaman af að vera þarna. Þarna komu heyrnartækin líka að góðum notum, ég slökkti á þeim og notaði þau sem heyrnartappa, því tónlistin var oft svo sterk að það nötraði allt í salnum.
Mynd úr svarta salnum í spilavítinu þar sem sýningin fór fram.
Sunnudeginum var eytt í Lissabon, byrjað á að skoða minnismerki um landkönnuðinn og sæfarann Vasco de Gama, en að vonum eru Portúgalar mjög stoltir af honum og margt hér í landi sem ber nafn hans.
Kort af einni af siglingaleiðum Vasco de Gama á torginu við minnismerkið.
Því næst var ekið um götur Lissabon og leiðsögukonan sagði okkur hvaða byggingar og garðar bar fyrir augu hverju sinni. Síðdegis áttum við svo frjálsan tíma á svæðinu þar sem heimssýningin var að mig minnir ´98 en þar er nú almenningsgarður og margt að sjá meðal annars er þar mjög stórt fiskasafn, en við vorum búin að koma þar áður svo við notuðum tímann til að rölta þarna um svæðið.
Horft af sýningarsvæðinu að brú yfir tesjuána og brúin heitir Vasco de Gama.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli