11 febrúar 2008

Stríð

Veður: - 1,8°/23° heiðskírt.

Það er ekki stríðlaust að vera bóndi og yrkja sína jörð í svita síns andlits. Ég bókstaflega lenti í stríði í dag og er sár eftir þegar ég var að vinna við að undirbúa skikann sem við ætlum að planta í lauk. Tvisvar sinnum tókst mér að forðast að verða særður með því að flýja árásaliðið og þar átti ég fótum mínum fjör að launa, en í þriðju árásinni var ég of seinn að forða mér og andstæðingnum tókst að særa mig á gagnauga, svo nú er það þrútið og á sjálfsagt eftir að verða skrautlegt með tímanum, en lífi og limum hélt ég en það sama er ekki að segja um hersveitina sem herjaði á mig hana stráfelldi ég í hörðum bardaga. Þessi illvígi her var búinn að helga sér land í safnhaugnum, einskonar hústökulið og slíkt lið er þekkt að því að láta ekki af hendi með góðu það húsnæði sem það er búið að leggja undir sig. Þetta voru sem sé vespur sem voru búnar að búa um sig þarna og tóku því ekki þegjandi að láta eyðileggja híbýli sín. Þær voru þarna á sveimi þegar ég byrjaði að róta í safnhaugnum, en ég vonaðist til að þær létu mig í friði, en þegar þær settust á höfuðið á mér og létu ófriðlega hörfaði ég, en svo endaði þetta með því að einni tókst að stinga mig og þá greip ég til gjöreyðingavopna, náði í flugnaeitur og sprautaði yfir svæðið og eftir smástund var allt liðið fallið í valinn og ég gat lokið mínu verki í friði.Vespa

Vespa, ógnvekjandi andstæðingur.

Engin ummæli: