05 ágúst 2008

Allt er þá þrennt er.

Veður: 17,2/30,7° þokuloft fram til hádegis, en léttskýjað síðdegis.

Dagurinn í dag fór dálítið á annan veg, en ég reiknaði með í gærkvöldi þegar ég lagðist á mitt græna og fór að sofa. Númer eitt var að það var þoka í lofti í stað sólskins sem ég hafði búist við í þessum sólarmánuði er það stór plús að fá þoku til að hvíla sig á sólskininu. Næsta atriði var að rafmagnið fór af og var rafmagnslaust í klukkustund, sem kom svo sem ekki að sök, en þriðja og alvarlegasta atriðið var að slanga sem liggur frá dælu í botni brunnsins var rorðin lek. Slangan er raunar búin að vera lek í nokkurn tíma en svo lítið að það kom varla að sök, allavega hummaði ég það fram af mér að gera við hana, þar til í morgunn að lekinn hafði aukist svo mikið að ekki var lengur viðunandi. Brunnurinn er ellefu metra djúpur svo það er talsvert erfitt að ná dælunni upp á yfirborðið, þess vegna hafði ég trassað að gera við lekann eins lengi og mögulegt var. Við Þórunn hjálpuðumst að við að ná dælunni upp og fjarlægja leka bútinn úr slöngunni, og vonuðum að þar með væru þessu verki lokið að þessu sinni. Af fenginni reynslu vorum við ekki neitt sigurviss, því þessi slanga er mesti gallagripur og hefur reynst illa og komið á hana leki hvað eftir annað, en okkur hefur ekki tekist að finna neina slöngu sem er sterkari. Það fór líka svo í morgunn að þrisvar sinnum máttum við hífa dæluna upp áður en yfir lauk, því það kom alltaf fram leki á nýjum stað. Nú er ekki annað að gera en vona það besta og það komi ekki nýtt gat að þessa vandræða slöngu alveg á næstunni.

DSC00109 Gallagripurinn.

 

Engin ummæli: