Veður: 11,6/30,3° léttskýjað.
Ég sá það í hendi mér í dag að það getur verið mjög varasamt að fara nákvæmlega eftir því sem segir í mataruppskriftum, en ég nota nú bara slump aðferðina, svo ég þarf ekki að vera með neinar áhyggjur af réttum eða röngum uppskriftum þegar ég malla. Tilefni þess að ég fór að spá í þetta með uppskriftir er að í dag sá ég þann stærsta lauk sem ég hef augum litið og það yrði eitthvað undarleg útkoma, ef sett væru eitt til tvö stykki af þessari stærð í uppskrift fyrir fjóra. Okkur var gefinn einn risalaukur í dag og þegar hann var vigtaður reyndist hann vera 1459 grömm. Hjónin sem gáfu okkur þennan lauk búa hér norður í landi og sögðust hafa fengið um það bil eitthundrað lauka af þessari stærð úr garðinum sínum í sumar. Hér fyrir neðan er mynd sem ég tók af þessum risalauk og til samanburðar er meðalstór sítróna og eldspýtustokkur af stærri gerðinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli