Ég hef sem betur fer aldrei upplifað að hani sem búið er að steikja og kominn á diskinn hjá mér rísi upp frá dauðum og gali þrisvar, en samt sem áður segir sagan að slíkt hafi gerst. Þetta á að hafa gerst í borg sem nú heitir Barcelos og er hér í norður Portúgal. Við fórum síðastliðinn fimmtudag og skoðuðum þessa borg og að sjálfsögðu er haninn tákn borgarinnar og nokkrar styttur af honum á víð og dreif um borgina. Upphaflega sagan er sú að pílagrímur sem var á leið til Santiago De Compustella á Spáni var handtekinn og ákærður fyrir þjófnað,en þrátt fyrir að hann héldi fram sakleysi sínu var hann dæmdur til hengingar´Sá dæmdi vissi að dómarinn ætlaði að snæða hana morguninn sem átti að hengja hann og þá greip hann til þess ráðs til að sanna sakleysi sitt að segja við dómarann. Það er til marks um sakleysi mitt að haninn sem þú ætlar að snæða á morgunn mun lifna við á diski þínum og gala þrisvar og þetta gekk eftir og þar með var pílagrímurinn látinn laus og dómarinn sjálfsagt þurft að verða sér úti um annan morgunverð daginn þann. Við tókum enga áhættu af að verða fyrir svona reynslu þarna og fengum okkur fisk að borða daginn sem við vorum þarna í heimsókn og sem betur fór tók fiskurinn ekki uppá því að vera með sporðaköst eftir að hann kom á diskinn.
Núna er þessi bær þekktur fyrir leirmuni sem þar eru framleiddir og ýmsa aðra handavinnu. Til að selja þessa muni er markaður í bænum á hverjum fimmtudegi. Þessi markaður er mjög stór, en með svipuðu sniði og aðrir markaðir hér í landi. Mér virtist sem markaður sígaunanna hefði mest aðdráttarafl. Þarna eru að sjálfsögðu tuskur af öllum gerðum til að toga og teygja, leirmunir af öllum gerðum, húsgögn meira að segja gott úrval af sófasettum, ávextir grænmeti og annað matarkyns auk ótal margs annars sem of langt yrði upp að telja. Set eitthvað af myndum með þessum pistli til að sýna lítið eitt af því sem fyrir augu bar.
Það er gaman að rölta um þennan bæ og skoða mannlífið á markaðnum og götunum, einnig er þarna sérlega falllegur garður, sem vel er þess virði einn og sér að gera sér ferð til að skoða.
Sýnishorn af leirmunum og þar á meðal eru styttur af hananum sem lifnaði við.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli