25 ágúst 2008

Breytt áætlun

Veður: 17,3/30,3° léttskýjað.

Fyrir nokkru fórum við meðfram ströndinni til norðurs í áttina að Porto, en sá vegur liggur í gegnum marga skemmtilega og falllega bæi. Það er líka hægt að komast til Porto héðan eftir tveim hraðbrautum og þær notum við gjarnan þegar við erum að flýta okkur t.d. til að komast á flugvöllinn, en frá hraðbrautunum er lítið að sjá, allt öðruvísi en að fara eftir þjóðvegunum, þá er maður meira í hringiðu mannlífsins. Að aflokinni þessari ferð ákváðum við að fara við gott tækifæri meðfram ströndinni fyrir norðan Porto og þeirri áætlun var hrundið í framkvæmd í morgunn. Margt fer samt öðruvísi þegar verið er að ferðast en búið er að ákveða, eða allavega var það svo í dag. Þegar við áttum skammt eftir ófarið að ströndinni komum við í bæ sem okkur fannst að áhugavert værið að skoða og okkur fannst hann svo áhugaverður að við eyddum lunganum úr deginum við að skoða bæinn og ákváðum bara að fara einhvern tímann seinna þarna norður með ströndinni. Það er það góða við landslag og bæi að það er nokkurn veginn öruggt að þeir verða áfram á sínum stað. Þessi bær sem okkur fannst svona gaman að rölta um heitir Vila Do Conde og stendur á árbakka skammt frá sjó og í ánni eru hafnarbakkar og þaðan eru stundaðar veiðar. Þarna er enn vatnslögn frá tímum rómverja og upphaflega var hún 26 km. löng og enn er talsverður hluti hennar uppistandandi. Þarna er stórt klaustur og það kom mér einkennilega fyrir sjónir að sjá rimla fyrir öllum gluggum, svo ég hélt að þetta væri fangelsi, en var upplýstur um að þetta væri klaustur. Hvers vegna þarf járnrimla fyrir glugga á húsi, ef fólk er þar inni af fúsum og frjálsum vilja?

DSC00430 Gamalt seglskip í höfninni, stóra byggingin er klaustrið.

DSC00432 Kúlulagaða húsið á klettinum er kapella.

DSC00442 Falllegur garður í Vila Do Conde.

Engin ummæli: