Veður: 17,4/27,5° úrkoma 11,4 mm. Þessi úrkoma féll eftir mælingu hjá mér í gær og í nótt, í dag var þurrt og að mestu léttskýjað.
Það getur komið sér vel að hafa myndavélina með í farteskinu hvert sem farið er, því maður veit aldrei fyrirfram nema eitthvað beri fyrir augu sem mann langar til að varðveita á mynd, eins og í kvöld þegar við vorum í heilsubótar göngu hér um þorpið. Fyrst smellti Þórunn einni mynd af kirkjunni um leið og við gengum framhjá henni, en það er svo sem hægt að taka mynd af kirkjunni hvenær sem er, því að því er ég best veit er kirkjan ekkert á förum á næstunni. Það gegndi öðru máli með næsta myndefni, sem mér fannst ég endilega þurfa að eiga mynd af, því þar er um að ræða hlut sem ég veit ekki hversu lengi til viðbótar verður í notkun. Þarna er ég að tala um vörubíl af Bedford gerð, sem ég held að sé að verða fimmtugur og mér finnst með ólíkindum að skuli vera gangfær enn þann dag í dag, því þetta þóttu ekki sérlega endingagóð tæki á Íslandi. En þarna var gamli Bedfordinn í fullu fjöri við að selflytja tré utan úr skógi á nýrri og stærri bíl, sem skilar svo trjánum áfram til verksmiðjunnar sem vinnur úr þeim trjákvoðu.
Það er ekkert fararsnið á kirkjunni í Vale Maior.
Þarna gefur að líta þróun í gerð vörubifreiða í hálfa öld. Það var mikið af þessum Bedford bílum í notkun fyrst þegar ég kom hingað, en nú er orðið fágætt að sjá þá á vegunum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli