12,5/25,1° þokuloft og smávegis þokusúld af og til, en of lítil úrkoma til að regnmælirinn næði að mæla úrkomuna, en allavega gott fyrir gróðurinn að fá þessa rekju.
Það er að verða árvisst hér að það komi köttur hingað nær dauða en lífi vegna hungurs. Um þetta leiti í fyrra birtist hann Prins okkar hér grindhoraður og illa útlýtandi og vitanlega var honum gefið að borða og síðan hefur hann verið hér okkur til ánægju. Prins hefur greinilega verið vanur góðu atlæti, því hann er mjög gæfur og kelinn.
Þegar við komum heim úr íslandsferðinni í lok júní var svo kettlingur að sniglast hér í kring, grindhoraður og mjálmaði í sífellu vegna hungurs. Þessi kettlingur var styggur og var um sig, en er nú farinn að spekjast og er smásaman að treysta okkur. Kettlingnum var líka gefið að borða eins og prins fyrir ári síðan og hann unir hag sínum vel hérna og er greinilega ekki á förum á meðan hann getur gengið að mat sínum vísum á hverjum degi. Prins leyfir kettlingnum að borða með sér, hins vegar getur hann orði pirraður út í kettlinginn þegar hann vill vera að fljúgast á, en þá gefur hann unglingnum bara vink með annarri loppunni, eða bítur hann í hnakkadrambið til að fá frið. Á myndinni eru þeir félagarnir að næra sig.