16 apríl 2008

Gengisfall og mistök.

Veður: 4,1°/25,1° Léttskýjað fyrst í morgunn, en þykknaði upp síðdegis og er að byrja að rigna nú undir kvöld.

Ég er víst farinn að fylgja fordæmi krónuræfilsins og féll um eina krónu í dag gangvart hverju veit ég ekki, en það er alveg á hreinu að ég er einni krónu fátækari í kvöld en í morgunn þegar ég vaknaði. Þarna á ég að sjálfsögðu tannkrónu sem ég fékk fyrir jól og í dag var hún orðin leið á vistinni og sleit sig lausa. Ég fór til tansa með þessa krónu sem ég hafði á lausu og þurfti að bíða ansi lengi eftir að hann gæti skotið mér inn á milli þeirra sem áttu bókaðan tíma, en það tókst að lokum og hann lokaði rótinni og svo á ég að mæta 9 maí, en þangað til liggur krónan hjá honum væntanlega á góðum vöxtum.

Þetta er nú samt ekki það eina sem fór úrskeiðis þennan sólarhringinn, því gærkveldi fékk ég bréf frá barnabarni um að skrá mig á samskiptaforrit á netinu og vera vinur hans þar og auðvitað gerði ég það en urðu á þau mistök að senda boð til allra sem eru með póstfang hjá mér og spyrja hvort þeir vildu ekki gerast vinir mínir á þessu forriti, slæm mistök það. Ég svaf á þessu í nótt en í morgunn sendi ég afsökunarbeiðni og útskírði málið og bað fólk að henda þessum pósti. Þetta varð samt til þess að í dag er ég búin að fá bréf frá fólki sem ég hef ekki heyrt frá í langan tíma og hélt satt að segja að væri búið að gleyma því að ég væri til.

Engin ummæli: