27 apríl 2008

Hringekja.

Veður: 12,2°/27,7° léttskýjað.

2008-04-27 Aveiro 004 

Sunnudagsferðin í dag var til Aveiro og í gönguferð um skemmtilegan fjölskyldugarð með andapolli, trjágöngum, bekkjum til að hvíla á lúin bein og ísbúð í nágrenninu. Þar með er allt upptalið sem þarf til að gera garðinn eftirsóknarverðan fyrir alla aldurshópa, enda var þarna fólk á öllum aldri. Þeir yngstu sem þarna voru á ferð voru áhyggjulausir í kerrum með foreldrum sínum, næsta þrep í þróuninni voru þeir sem farnir eru að spá í endur og fiska í tjörninni. Næsta þrep gæti svo verið ástfangið par sem var þarna á göngu og ef allt gengur að óskum verður það komið með ungan sinn í þennan garð eftir nokkur ár. Nú svo má ekki gleyma að minnast á fólk eins og okkur, sem er búið að upplifa allt þetta og er sátt við sína tilveru og tekur lífinu með ró. Það svona flaug í gegnum hug mér að þarna sæi maður hringekju lífsins á einum stað.

Á eftir gönguferðinni um garðinn fórum við inn á kaffihús og þá fór mér líkt og tröllunum í gamla daga sem fundu mannaþef í helli sínum, nema þarna fann ég sígarettuþef, sem ekki hefur fundist á kaffihúsum síðan reykingabann tók gildi um áramótin. En í þessu kaffihúsi var búið að setja upp loftræstikerfi yfir hluta salarins og þó það væri í gangi barst auðvitað reykur um allt kaffihúsið. Ég bara vona að þetta sé ekki það sem koma skal, því þá verður ekki mikið gagn að reykingarbanninu, en fram að þessu hefur það virkað mjög vel og þeir sem vilja reykja hafa orðið að reykja utandyra, enda víða komin borð og stólar fyrir utan kaffihús.

2008-04-27 Aveiro 011

Þórunn á kaffihúsinu og sér í loftræstikerfið upp við loft.

 

reykja utandyra, enda víða komin borð og stólar utan við kaffihús.

Engin ummæli: