23 apríl 2008

Mikil afköst.

Veður: 14,1°/24° úrkoma 6 mm. Þokusúld í morgunn og fram undir hádegi, en þá fór að birta til og hlýna og orðið léttskýjað undir kvöld.

Í dag bútuðum við niður þær greinar sem ég sagaði ofan af trénu í gær og eru nógu sverar til að nota í ofninn næsta vetur. Þegar búið er að brenna þær eru þær búnar að hita manni tvisvar, fyrst við að saga þær í búta og svo kemur hitinn frá ofninum þegar þær brenna.

Talandi um upphitun á húsnæði hvort sem um er að ræða eitt herbergi eða stærra rými, þarf talsverða orku til að halda þar hæfilegu hitastigi, þess vegna er það alveg með ólíkindum hve gífurleg hitaorka það er sem er á ferðinni í lofthjúpnum yfir jörðinni. Þetta kom glöggt í ljós hér í dag, það er búið að vera fremur svalt í veðri hér undanfarna daga, en á nokkrum klukkustundum í fag kom hlýrra loft og síðdegis var mjög notalegt veður. Sama er upp á teningnum þegar svalt loft oft alla leið norðan úr íshafi nær til okkar, þá getur kólnað um margar gráður á nokkrum klukkustundum. Það er greinilegt að náttúruöflin hafa yfir að ráða stórvirkum tækjum hvort sem um er að ræða að hita eða kæla loftið.

Engin ummæli: