20 júlí 2007

Gott ferðalag

Veður: 7°/28,3° léttskýjað.

Í gærdag vorum við á ferðalagi með leikfimihópnum okkar alls 42 manns. Það var farið í tveim littlum rútum og við vorum í þeirri sem lagði síðar af stað, en á hraðbrautinni á leiðinni tók okkar maður fram úr hinni rútunni við mikil fagnaðarlæti farþega sinna, þó þeir séu allir komnir af léttasta skeiði. Ferðinni var heitið til að skoða garð í nágrenni Porto. Þetta er stór garður með merktum plöntum og trjám, en einnig er í garðinum ýmsar dýrategundir, þó mest fuglar. Það er malbikaður göngustígur sem farið er eftir og hann er nær þriggja kílómetra langur. Það tók um tvo tíma að fara þessa leið því það eru svo margir staðir sem þarf að stoppa á til að skoða dýrin. Það er reynt að hafa þau í sem eðlilegustu umhverfi.
Þegar gönguferðinni var lokið var komið hádegi og nær allir höfðu tekið nesti með sér, en við keyptum okkur mat á veitingastað sem er þarna á svæðinu. Þarna er líka mjög góð aðstaða fyrir fólk til að borða nestið sitt. Við fórum þangað þegar við vorum búin að borða og þá vildu allir troða í okkur meiri mat, það er venja hér í svona ferðum að vera með allt of mikinn mat og reyna að fá aðra til að bragða á góðgætinu sem verið er með. Að sjálfsögðu gengu bílstjórarnir á milli góðbúanna, svo þeir fengu örugglega magafylli.
Við Þórunn vorum að taka myndir í ferðinni, enda þau einu sem voru með myndavélar. Fólki hér finnst svo varið í að það séu teknar af því myndir. Það eru hjón með okkur í leikfimini sem við nefnum okkar á milli littlu Gunnu og littla Jón, því þau eru svo lág í loftinu. Littli Jón er alltaf kátur og hress og hrifir sig líkt og Chaplin gerði í sýnum myndum. Ég smellti mynd af karli þar sem hann var að vappa um, þá kom hann og bað mig um að taka mynd ad sér við hlið Gunnu sinnar, sem, ég gerði að sjálfsögðu. Ég prentaði myndina svo út og færði honum í morgunn,en þá var síðasti leikfimitími fyrir sumarfrí, það var ekki lítið sem minn maður var kátur að fá þessa mynd og mikið þakkaði hann vel fyrir þetta lítilræði.
Næsti áfangi í ferðinni var svo að skoða víngerðarhús á bökkum Duro árinnar, en þar er hið fræga portvín framleitt. Hópurinn fékk leiðsögn um víngerðina. Það er mjög fróðlegt að sjá þessar risastóru ámur sem vínið er geymt í og tunnur og flöskur í ótölulegum fjölda. Að lokum var fólki boðið að bragða á veiguunum og kaupa sér vín, ef það vildi. Þetta var mjög ánægjulegt og fróðlegt ferðalag.
Hér fyrir neðan er mynd af einu matarborðinu, þar sem verið er að reyna að troða mat í fólk. Þarna bara mátti ég til að bragða á osti frá æskuslóðum einnar húsmóðurinnar.


Engin ummæli: