Við lögðum upp í ferðalag í gærmorgunn þrátt fyrir smávegis rigningu, en það stytti upp þegar leið á daginn svo við vorum bara ánægð með að fá rigningu vegna gróðursins. Við byrjuðum á að heilsa upp á Grösu og fjölskyldu þar sem hún er á tjaldstæði með hjólhýsið sitt og bróðir hennar er þar líka með sitt hjólhýsi og auðvitað eru þau þarna ásamt sínum fjölskyldum Grasa var í góðu skapi þrátt fyrir rigninguna, en hún segir að það bregðist varla að ef hún fari í frí þá komi rigning. Við vorum boðin í mat þarna í hjólhýsunum, en þau voru að byrja að elda fisk þegar við komum og það var ekki við annað komandi en við borðuðum með þeim. Þetta var dæmigerð portúgölsk máltíð sagði Grassa okkur. Þau höfðu keypt nýjan smáfisk af fisksala niður í fjöru daginn áður. Fiskurinn var soðinn og síðan beinhreinsaður og að því búnu var hellt yfir hann ólífuolíu og ediki. með þessu voru borðaðar soðnar kartöflur og strengjabaunir ásamt brauði, ekki flókið en bragðaðist vel. Grassa sagði að svona matreiðslu væru þau systkinin vön frá því þau myndu eftir sér. Soðinn fiskur einu sinni á dag ásamt kartöflum og mismunandi grænmeti. Aðal magafyllin var í kartöflunum því fiskurinn var mjög naumt skammtaður alveg eins og í gær. Þau höfðu keypt 7 littla fiska handa sjö manns. Grassa og bróðir hennar sugu beinin úr hausunum, en það er eitthvað sem þau eru vön að gera frá unga aldri. Þetta var sem sagt fróðleg stund um portúgalskar matarvenjur.
Eftir dvölina með grösu og fjölskyldum héldum við áfram ferðinni á okkar áfangastað sem var bær að nafni Caldas da rainha, eða böð drottningarinnar. Þarna er heitt vatn í jörrðu og meira að segja er af því ósvikin hveralykt. Gigtveik drottning Portúgals sem átti leið þarna um á fimmtándu öld frétta að því að fólki með ýmsa kvilla batnaði þeir í þessum böðum svo hún fór í þessi böð og fékka bót meina sinna svo hún seldi eitthvað af skartgripum sínum og lét reisa þarna heilsuhæli og enn þann dag er starfandi þarna nokkuð stór baðstaður. Það er líka mjög fallegur og vel hirtur garður í þessum bæ. Við vorum á rölti um bæinn í fjóra tíma í gær og fengum okkur gönguferð um gamla bæjarhlutann aftur í morgunn áður en við lögðum á stað heim.
Trjágöng í garðinum í Caldas da Rainha.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli