Nú er ég farinn að notfæra mér nýja tækni varðandi notkun tölvunnar, en sú tækni býður upp á að nota tvo skjái við sömu tölvuna. Með þessu móti get ég haft síðuna sem ég er að skoða stækkaða á öðrum skjánum sem þýðir að ég sé ekki nema hluta af síðunni í einu, sem verður oft til þess að það fer eitthvað framhjá mér sem ég hefði viljað skoða, en með því að hafa síðuna í eðlilegri stærð á skjánum til hægri hef ég yfirsýn yfir alla síðuna þar. Einnig býður þessi tækni upp á að skjalið fari á báða skjáina í einu sem þýðir mun stærri mynd og minni þörf á að vera að renna myndinni til hliðar til að sjá það sem er á skjánum hverju sinni. Það er líka möguleiki að vinna með sitthvort viðfangsefnið á sitthvorum skjánum.
Það er gott að eiga þess kost að geta nýtt sér tölvutæknina til að létta sér lífið, það er til dæmis alveg stórkostlegt að geta látið lesa fyrir sig allan texta sem birtist á skjánum og geta skrifað inn texta með því að talgervill les hvern staf sem sleginn er inn og svo orðið þegar ítt er á stafabil.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli