05 ágúst 2007

Ferðalag


















Með því að smella á "Nyndir" hér til hgri á síðunni er hægt að skoða fleirri myndir úr ferðalaginu.

Mathild grannkona okkar kom hér óvenju glaðbeitt einn daginn til að segja okkur að hún og Malli hennar væru að fara í ferðalag, en slíkt hendir nú ekki oft á þeim bæ, svo þetta var meiri háttar viðburður og eitthvað til að hlakka til.Ferðatilhögunin var að byrja átti að aka í rútu um 150 km að bæ upp með Duro ánni sem heitir Peso da Regua þar átti að stíga um borð í ferju og sigla með henni niður eftir Duro ánni til Porto nær 100 km. Þar átti aftur að fara i rútuna og hún átti að flytja hópinn á hótel í Mangualda og þar átti að gista eina nótt. Næsta dag var svo á dagskrá vörukynning og sala á hótelinu, en maður þarf ekkert að kaupa sagði Mathild og ég kaupi örugglega ekki neitt bætti hún við, en annað kom nú á daginn, enda kunni sölumaðurinn sitt fag. Síðast a dagskránni áður en halda skyldi heim á leið var svo að skoða víngerð þar sem Dao vínin eru framleidd. Allt þetta ferðalag kostaði 67,50 evrur á mann og þá var allt innifalið fullt fæði allan tímann, gisting og rútu og bátsferðir. Mathild vildi endilega að við kæmum með í þetta ferðalag, sem við gerðum og höfðum gaman af, einnig slógust Jónína og Guðmundur með í hópinn, en alls voru nær fjörutíu manns í hópnum.

Jónína og Guðmundur gistu hjá okkur nóttina fyrir ferðalagið, því það er tveggja tíma akstur frá heimili þeirra hingað og það átti að leggja af stað frá´kirkjunni hér í dalnum klukkan 9,15, svo við voru þrjú pör sem töltu saman með sína föggur að kirkjutorginu í sól og helst til miklum hita. Rútan mætti stundvíslega og við vorum lögð á stað í þessa miklu reisu klukkan 9,30. Leiðin að ferjustaðnum liggur um fjallendi og það er víða mjög falllegt á þessari leið sem við fórum, enda sést vel yfir úr þessum tveggja hæða bílum.

Á ferjustaðinn vorum við komin klukkan 11 og okkur var sagt að drífa okkur um borð því ferjan væri farin að bíða eftir okkur, svo við fengum engan tíma til að skoða bæinn sem við vorum komin í. Þarna sameinuðumst við fleiri hópum og alls held ég að það hafi verið um 150 manns um borð í ferjunni, sem er í raun og veru allt of margt fólk miðað við stærð bátsins. Það var svo stutt á milli borða að maður var alveg klemmdur að borðinu þegar setið var við það, en það voru borðaraðir meðfram hvorri hlið og gangur í miðjunni. Gluggar voru á báðum hliðum, svo það var gott útsýni þegar setið var við borðin. Fyrir ofan borðsalinn var svo dekk með bekkjum eftir endilöngu til beggja hliða, en það var fullheitt þennan dag til að vera lengi þar í einu gott að fara inn í loftkældan matsalinn af og til.

Það sást ekki mikil byggð á árbökkunum, því þeir eru víðast brattir og háir, en á stöku stað sást þá smáþorp og á nokkrum stöðum voru baðstrendur á árbakkanum. Klukkan eitt var borinn fram þríréttaður hádegisverður, súpa, aðalréttur og ábætir og drykkir að vild allan daginn. Ég dáðist mikið að þjónunum hvað þeir voru snöggir að afgreiða mat í allan þennan fjölda gesta í þessum miklu þrengslum sem þarna eru og erfið vinnuaðstaða.

Þegar ferðin með bátnum var hálfnuð þurfti að færa til tvö borð svo hægt væri að komast að lúgu í gólfinu til að ná í meira vín niður í lest.

Tvisvar á leiðinni niður ána þurfti báturinn að fara í skipastiga. Það er brú yfir ána þar sem skipastiginn er og þegar siglt var inn í hólfið var stutt upp í brúargólfið, en þegar búið var að hleypa vatninu úr hólfinu var orðið mjög hátt upp í brúargólfið. Það er undarlegt að vera í bátnum þegar hann sígur neðar og neðar í þessu hólfi.

Klukkustund áður en ferðinni lauk fengum við svo létta máltíð. Til Porto vorum við komin klukkan sex. Áhöfnin stillti sér upp á bryggjunni til að kveðja gesti sína. Já ég var nærri búinn að gleyma að geta þess að það var tónlistafólk með í ferðinni sem spilaði og söng fyrir gestina og nokkrir gesta reyndu meira að segja að stíga dans í þrengslunum.

Við landganginn beið svo stúlka til að vísa hópnum leiðina í rútuna á ný.

Eftir tveggja tíma akstur vorum við komin að hótelinu í Mangualda. Þetta er nýlegt og stórt hótel sem stendur í brekku hátt upp yfir þorpinu, svo það var mjög víðsýnt af svölunum í herberginu okkar. Bæði sást upp til stjörnufjalla, sem er hæsta fjall Portúgals og eins yfir Daodalinn. Sölumaðurinn t´k á móti hópnum við hótelið og benti fólki á að láta skrá sig inn og eftir að hafa farið í bað og komið sér fyrir á herbergjunum átti að mæta á bar hótelsins þar sem við vorum boðin velkomin og drukkið eitt staup í því tilefni. Þá var klukkan orðin níu og komið að kvöldverði. Þar var líka þriggja rétta máltíð, en ólíkt rýmra um okkur en á bátnum. Hótelið var reglulega vistlegt í alla staði. Eftir kvöldverð var leikin tónlist fyrir fólk ef það vildi stíga dans, en flestir kusu að fara að hvíla sig eftir langa og ánægjulega ferð. Mér fannst það svolítið skondið að það var borið fram vín með matnum og vatn eins og hver vildi, en það var tekið fram að ef okkur langaði í kaffibolla á eftir matnum þá yrðum við að borga hann sjálf.

Næsta morgunn var svo morgunverður klukkan hálfníu, en klukkan níu hófst svo sölusýningin. Við vorum búin að tala um það okkar á milli að þessir ferðafélagar okkar væru nú ekki líklegur markhópur til að selja, en við áttum eftir að komast að því að þar höfðum við rangt fyrir okkur, því fólkið keypti ótrúlega mikið. :arna var verið að selja potta, pönnur og annað til heimilisins, einnig einhver krem og töflur, auðvitað mjög heilnæmt og náttúrulegt.

Það voru líka stærri hlutir eins og nuddstólar og tæki til að taka raka úr loftinu inni í íbúðarhúsum. Nágrannar okkar glæptust á að kaupa eitt slíkt tæki, þó það væri mjög dýrt miðað við önnur sambærileg tæki sem eru á markaðnum, en sölumaðurinn var bara ótrúlega snjall. Honum tókst samt ekki að pranga neinu inn á okkur, það hefur ef til vill orðið okkur til bjargar hvað það er takmarkað sem við skiljum í portúgölskunni. Þetta er líka mjög lúmsk að ferð að bjóða fólki í flotta ferð með góðum mat og víni fyrir spott prís, þá finnst örugglega mörgum að þeir séu skyldugir til að kaupa eitthvað af manninum.

Þessi sölustarfsemi tók nærri fjóra tíma en að henni lokinni var síðasta máltíð ferðarinnar borðuð á hótelinu. Það var þriggja rétta máltíð ein og áður og sömu skilmálar vín eins og þú vilt, en borga fyrir kaffibolla. Eftir matinn fóru sumir gestanna gangandi að skoða kirkju sem er rétt við hótelið, en þegar því var lokið var komið að síðasta atriði ferðarinnar að skoða víngerð. Þessi víngerð er við bæinn sem við gistum í og framleiðir vín sem kennd eru við héraðið og nefnast Dao vín. Þetta er ný verksmiðja og mjög áhugavert að skoða hana undir leiðsögn. Að lokinni skoðuninni var komið við í vínbúð verksmiðjunnar og þar afhenti fararstjórinn hverjum og einum þátttakanda í ferðinni rauðvínsflösku að gjöf. Eftir að var lagt á stað heileiðis og að kirkjunni hér í dalnum vorum við komin aftur klukkan sex um kvöldið eftir tveggja daga ánægjulega ferð.

Engin ummæli: