Veður: 8,7°/28,1° þoka til hádegis, síðan léttskýjað.
Portúgölsk hjón sem við erum með í leikfimi hafa sýnt okkur mikinn vinskap og fóru meðal annars með okkur einn dag til a sýna okkur Porto, en þar bjuggu þau í nokkur ár og eru því vel kunnug borginni. Tvisvar sinnum hafa þau boðið okkur í mat og í seinna sinnið sem við vorum hjá þeim í mat var ákveðið að þau kæmu hingað í mat í kvöld, sem þau og gerðu. Um hádegi í dag hringdi konan og sagði að mágkona hennar og hennar maður væru í heimsókn hjá þeim svo þau gætu ekki komið í mat nema þau kæmu líka, mín kona var fljót að segja að það væri í góðu lagi að þau kæmu öll í mat til okkar.
Á mínútunni sjö voru þau svo mætt og komu færandi hendi egg, paprikur, baunir og pottablóm, það dugði ekki minna. Bæði þessi hjón eru þaðan sem kallað er á bak við fjöllin og Þar hafa eldri hjónin búið alla sína tíð, en þau eru orðin 75 ára, en eru hér á ferð til að vera viðstödd skírn. Þetta er reglulega elskulegt fólk, sem var mjög gaman að fá í heimsókn.
Á myndinni eru talið frá vinstri. Maria og Manúel, en þau búa á bak við fjöllin og þá eru það leikfimifélagar okkar þau Alcina og José.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli