01 janúar 2007

Gleðilegt ár.

Veður: 8,4°/15,9° úrkoma 5mm. Þoka eða þokusúld fram að síðdegiskaffi, en þá létti til..

Ég óska öllum farsældar á þessu ári sem nú er að hefja siía göngu inn í óráðna framtíð.

Ég átti eftir að gera grein fyrir síðustu stundum síðasta árs og best að ljúka við það áður en farið er að setja á prent atburði nýja ársins.
Mathild grannkona okkar var búin að orða það við okkur að við borðuðum með þeim hjónum síðustu kvöldmáltíð ársins, en átti eftir að tímasetja nákvæmlega klukkan hvað við ættum að mæta í matinn. Ég var nú raunar í vafa um hvort ég ætti að fara til þeirra því ég var svo kvefaður og vildi ekki vera að smita þau af kvefinu. Þegar svo Mathild kom hér yfir var hún líka kvefuð, svo ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af að bera kvefið í hana.
Þegar við komum yfir til þeirra var hún enn að fást við matreiðsluna í sínu útieldhúsi, en var búin að leggja fínt á borð fyrir okkur í eldhúsinu og þar skíðlogaði í arni, svo það var notalegt þar inni.
Manúel vildi drífa í mig Wiksky til að ná úr mér kvefinu, þegar ég vildi ekki þiggja það bauð hann mér Martini, en ég afþakkaði það líka, svo ég get víst sjálfsagt sjálfum mér um kennt að vera enn þjáður af kvefi.
Manúel veit fullvel að við drekkum mjög lítið vín, en samt opnaði hann bæði hvítvíns og rauðvínsflösku, ég hef hann sterklega grunaðan um að gera þetta í eiginhagsmunaskini. Því hann gerir veigunum mjög góð skil.
Matthild var búin að steikja handa okkur svínakjöt, sem var mjög ljúffengt hjá henni, með þessu bar hún fram heimabakað brauð, soðin grjón, steiktar kartöflur og úr dós komu gulrætur og grænar baunir.
Í eftirrétt var hún svo með kökur og í þetta sinn reyndi hún ekki að troða endalaust í mig mat, hún tók alveg tillit til þess að ég var fremur listarlítill.
Að sjálfsögðu var sjónvarpið opið allan tímann sem verið var að borða, það hvarflar ekki að nokkrum manni hér í landi að slökkva á sjónvarpinu, þó það séu gestir.
Það var byrjað einhvers konar áramótaskaup í sjónvarpinu áður en við fórum og helst var það fundið stjórnandanum til vansa, en það var víst íturvaxin stúlka að hún beraði of mikið af brjóstum sínum. Eftir því sem Mathild sagði er allt í lagi að gera slíkt undir fjögur augu inni í svefnherbergi og sömuleiðis á ströndinni, en fyrir framan alþjóð i sjónvarpi nei takk. Manúel tók undir þetta með sinni konu, en eitthvað fannst mér vanta upp á sannfæringarkraftinn hjá honum.
Sjónvarpið þeirra er svo lítið að ég sé eiginlega ekkert af því sem þar fer fram svo ég gat ekki tekið þátt í þessum samræðum.
Þetta var semsagt indælt áramótakvöld sem við áttum með nágrönnum okkar.

Fyrsti dagur ársins heilsaði svo með þokulofti og rigningarsudda, en mildu veðri.
Við ákváðum að láta á það reyna hvort við fyndum opin matsölustað og láta eldamennsku lönd og leið.
Það reyndist auðveldara en við áttum vona, því staðurinn sem við komum fyrst að reyndist opinn, við höfum nokkrum sinnum borðað þarna og alltaf fengið góðan mat og þjónustan er mjög góð.
Ekki var heldur verið að okra neitt á okkur þó það væri nýársdagur. Fyrir góða steik og ábæti greiddum við 2400 Kr. fyrir okkur bæði.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer út að borða um áramót og ég á alveg eins von á að það verði endurtekið einhvern tímann síðar, því þetta var góð tilbreyting.

Engin ummæli: