Veður: 2,6°/14,6° léttskýjað framan af degi, en síðdegis alskýjað og meira að segja örfáir regndropar.
Síðastliðinn fimmtudag orðuðum við það við nágranna okkar, þau Matthild og Manúel að við biðum þeim út að borða nú um helgina.
Það þurfti að beita nokkrum fortölum til að fá þau til að þiggja boðið,þau báru því við að það væri allt of dýrt að kaupa mat á veitingahúsi, þegar hægt væri að búa til mat heima og svo væri nú ekki gefi bensínið á bílinn. Við sögðumst bara eiga of mikið af peningum og þau yrðu að hjálpa okkur við að koma þeim í lóg með því að þiggja að fara með okkur út að borða.
Það talaðist svo til að við færum þetta á laugardeginum, en á föstudag bað Manúel um að þetta yrði frekar á sunnudeginum því hann ætlaði að nota laugardaginn til að klippa vínviðinn sinn. Ég veit ekki alveg hvers vegna lá allt í einu svo mikið á því að klippa vínviðinn, því enn er langt í að hann fari að laufgast.
Nú er messað klukkan tólf á sunnudögum, svo við komumst ekki af stað fyrr en klukkan eitt, en það var í góðu lagi við vorum komin á veitingahúsið klukkan hálf tvö. Fólk var að koma í mat til klukkan að verða þrjú.
Það varð ofaná eftir miklar vangaveltur hjá þeim hjónum að panta sér eina stóra nautakótelettu, saltfiskurinn freistaði þeirra líka, en nautasteikin var meira nýnæmi og hún bragðaðist líka mjög vel. Við fengum okkur saltfisk að hætti hússins og fannst hann mjög góður.
Nú er ég kominn fram úr sjálfum mér ég gleymdi að segja frá forréttunum.Það var sitt lítið af hverju,brauð, rækjur, melóna,presunto og pulsur.
Í eftirrétt var svo valið að fá pönnuköku fyllta með ís og skreytta með rjóma og súkkulaðisósu.
Hjónin skoluðu matnum niður með rauðvíni, en við fengum góðan árgang af vatni, sem við urðum ekki fyrir vonbrigðum með, það stóð fyllilega undir væntingum eins og ævinlega.
Eftir matinn röltum við einn hring á stórum útimarkaði sem er 28. hvers mánaðar í Aveiro. Það var mjög margt fólk á markaðinum eins og ævinlega. Markaðir eru mjög vinsælir hér, enda löng hefð fyrir þessum verslunarmáta hér í landi.
Myndin er af þeim hjónum ásamt steikinni góðu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli