20 janúar 2007

Nýtt ljós

Veður: 5,7°/18,2° þoka fyrst í morgunn, en síðar að mestu léttskýjað.

Nú er komið nýtt og fallegra ljós yfir eldhúsborðið hjá okkur, það leysir af hólmi plastljós sem hefur þjónað sínu hlutverki með prýði undanfarin ár. Það hefur skilað þeirri birtu sem til var ætlast af því, en var ekki augnayndi í leiðinni. Þórunn er víst nokkrum sinnum búin að minnast á að það væri gaman að fá fallegra ljós í eldhúsið, jú ég hef svo sem verið sama sinnis með það, en samt ekki eins áhugasamur og hún.
Eitthvað hefur henni verið farið að leiðast þófið, því fyrir jólin spurði hún hvort hún gæti bara ekki fengið eldhúsljósið í jólagjöf.
Slíkt fannst mér ekki koma til greina að fara að gefa henni í jólagjöf hlut sem nota ætti í íbúðarhúsinu, en þetta varð til þess að við fórum í alvöru að svipast um eftir nýju eldhúsljósi í búðarferðum okkar, en einhvern veginn var það svo að við sáum ekkert sem okkur fannst spennandi.
Það til í þessari viku að við litum inn í verslun sem nýlega er búið að opna í Aveiro, þar var ljós sem okkur leist báðum vel á og ákveðið var að kaupa.
Þegar átti að fara að pakka ljósinu inn kom Þórunn auga á að það var brotið og ekki til annað ljós alveg eins. Afgreiðslustúlkan bjóst við að fá annað ljós eftir einn eða tvo daga, svo við fórum á stúfana í dag til að athuga hvernig gengi. Það kom okkur ekki verulega á óvart að ljósið var ekki komið og nú voru engin ákveðin svör um hvort eða hvenær það kæmi.
Svo það varð úr að velja ljós með öðru munstri og nú er það komið á sinn stað yfir eldhúsborðinu og á vonandi eftir að varpa birtu á mismunandi kræsingar á borðinu um ókomin ár.

Engin ummæli: